144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

störf þingsins.

[10:03]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef vaxandi áhyggjur af stöðu fatlaðs fólks og öryrkja í samfélaginu og þeirri braut sem Alþingi er á sem fjárveitingavald. Enn eina ferðina fáum við fréttir af því að túlkasjóður er tómur svo að fólk sem þarf að nýta sér túlkaþjónustu getur ekki tekið þátt í samfélaginu með eðlilegum hætti. Í langtímaáætlunum sést það þegar kemur að ríkisfjármálum að fyrst stóð til að hækka bætur almannatrygginga um 3,5% á þessu ári en niðurstaðan varð sú að Alþingi lækkaði þá upphæð niður í 3%, sem er náttúrlega skammarlegt, og að áætlanir gera ráð fyrir að árlegar hækkanir verði einungis 1% umfram verðbólguspár.

Þær jákvæðu fréttir eru nú að berast af vinnumarkaði að þar virðast samningar vera að takast, sem betur fer, um að lægstu laun muni hækka talsvert. Ég hef bara miklar áhyggjur af því að hér verði algjör kjaragliðnun, þ.e. að öryrkjar og fatlað fólk verði látið sitja algjörlega eftir. Til að svo verði ekki verðum við sem vinnum á Alþingi að sjá til þess að nægt fé verði tryggt inn í almannatryggingakerfið þannig að hægt sé að hækka bætur almannatrygginga svo að þeir sem þurfa að reiða sig á þær fjárhæðir geti lifað mannsæmandi lífi.