144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

störf þingsins.

[10:05]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Í fréttum þessa daga heyrum við af einstaklingum og fjölskyldum sem lent hafa illa í því sökum efnahagshrunsins. Við heyrum fréttir af því að 81% þeirra sem misstu húsnæði sitt á nauðungarsölu á Suðurnesjum á árunum 2008–2011 búi núna á leigumarkaði. Margir þeirra eiga erfitt með að fá leiguhúsnæði því að nafn þeirra er á svörtum lista hjá m.a. Creditinfo, sem gerir þeim erfiðar fyrir að fá þak yfir höfuðið. Það eru nefnilega leiguaðilar hér á landi sem vilja ekki leigja einstaklingum og fjölskyldum sem standa í þeim sporum.

Ef horft er í þessa tölu frá Suðurnesjum kemur fram að börn eru búsett á helmingi þessara heimila. 45% þeirra þurftu að skipta um skóla vegna aðstæðna, 32% þeirra misstu tengsl við vini, 15% þurftu að hætta í tómstunda- og/eða íþróttastarfi. Í sumum fréttum kemur fram að hluti þessara einstaklinga og fjölskyldna nýtti sér ekki þau úrræði sem í boði voru á síðasta kjörtímabili fyrir heimilin sem áttu í verulegum skuldavanda. Og hvers vegna ætli það hafi verið? Getur verið að úrræðin hafi verið ætluð verulega afmörkuðum hópi eða voru þau ekki nógu vel kynnt? Maður spyr sig.

Jafnframt kemur fram í fréttum, og er það afar alvarlegt mál, að þeir aðilar sem nýttu sér þau úrræði sem í boði voru, eins og t.d. greiðsluaðlögun, hafa verið settir á svartan lista. Í svari við fyrirspurn sem ég fékk fyrir nokkru eða á síðasta þingi kom fram að þeir sem hafa farið í greiðsluaðlögun eða sérstaka skuldaaðlögun séu merktir sem slíkir í fjármálakerfinu í allt að sjö ár þrátt fyrir að hafa verið búnir að ljúka sínu skuldaferli. Þessar staðreyndir sýna hversu mikilvægt það var að fara í almenna skuldaaðgerð alveg eins og Framsóknarflokkurinn lagði til strax frá árinu 2009 og varð að veruleika fyrir nokkru síðan. Þessar upplýsingar sýna líka hversu mikilvægt það er að við öll leggjumst hér á eitt til að koma húsnæðisfrumvörpum í gegnum þingið fjölskyldum til hjálpar og þeim heimilum sem standa í þessum sporum, þannig að einstaklingar hafi raunverulegt val um búsetuform (Forseti hringir.) á húsnæðismarkaði fjölskyldum til heilla.