144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

störf þingsins.

[10:19]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Nú þegar ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur setið að völdum í tvö ár eru margar góðar vísbendingar um þróun í þjóðfélaginu. Allir hagvísar eru jákvæðir, séð er fram á hagvöxt upp á 4% næstu tvö ár, atvinnuþátttaka hefur aldrei verið meiri á Íslandi, hér hafa þúsundir starfa verið sköpuð á síðustu tveimur árum, atvinnuleysi minnkar, atvinnuuppbygging er farin af stað eftir stöðnun. Nú treysta menn sér til að byggja upp í ferðaþjónustunni, menn treysta sér til þess að fjárfesta í fiskveiðum og -vinnslu með tilheyrandi umsvifum hjá verktökum og fyrirtækjum sem eru í framleiðslu á fiskvinnslutækjum. Verðbólga hefur ekki verið jafn lág samfellt síðan mælingar hófust, má segja. Skuldir heimila hafa lækkað umtalsvert og munar þar miklu um vel heppnaða skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar sem hefur komið heimilum með meðaltekjur og lægri tekjur mjög til góða. Síðan berast fréttir af því að nú hilli undir skref í að afnám gjaldeyrishafta geti farið að hefjast.

Allt eru þetta jákvæðar vísbendingar og jákvæðar fréttir og til þess fallnar að auka fólki bjartsýni og blása því baráttuanda í brjóst. Það er því full ástæða til þess að fagna öllum þessum góðu vísbendingum sem blasa við í þjóðlífinu og þær eru gott veganesti inn í sumarið.