144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

störf þingsins.

[10:33]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir gerði í gær að umtalsefni rassvasabókhald ríkisstjórnarinnar þegar kemur að úthlutun fjármuna til ferðamannastaða, 850 milljónir sem menn hafa ákveðið af örlæti sínu að setja í þann málaflokk á síðustu dögum þingstarfa þrátt fyrir mjög málefnalega gagnrýni minni hlutans í aðdraganda fjárlaga á síðasta ári, sem var um það að ekki væri nægilegt fjármagn sett í þetta, ekki væri verið að undirbyggja eða plana eða undirbúa ákvarðanatöku um ráðstöfun fjármuna nægilega vel.

Til að undirstrika sleifarlagið í rekstri núverandi ríkisstjórnar þá er hér dreift, þegar tveir dagar eru eftir af starfsáætlun Alþingis, tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015–2018. Hvenær átti eiginlega að fjalla um þá tillögu, virðulegur forseti? Hvenær sáu menn fyrir sér að umhverfis- og samgöngunefnd mundi taka hana til efnislegrar umfjöllunar? Af hverju er verið að fífla þingheim með þessum hætti? Til hvers er verið að gera þetta? Er ekki eðlilegra að forsætisráðherra sendi bara út SMS til Vegagerðarinnar um hvað eigi að gera? Það að dreifa svona áætlun á næstum því lokadegi þingsins er auðvitað ekkert annað en lítilsvirðing við þingið. Það er algjör lítilsvirðing við umhverfis- og samgöngunefnd, það er í raun og veru verið að segja, og líka með tillögum ríkisstjórnarinnar um framlög til ferðamannastaða, að ríkisstjórnin treysti ekki (Forseti hringir.) þinginu til að fjalla um þessi mál. (Forseti hringir.) Henni finnst þetta bara ekkert koma þingmönnum við (Forseti hringir.) á nokkurn einasta hátt. Hvenær átti að fjalla um samgönguáætlun?