144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

stefna stjórnvalda um lagningu raflína.

321. mál
[10:42]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við vinnslu þessara tveggja mála sem atkvæði eru greidd um, það mál sem hér er til umfjöllunar og það næsta, hafa verið gerðar margvíslegar jákvæðar breytingar að ósk minni hlutans í þinginu. Ber að þakka fyrir það, það er mikilvægt. Hins vegar eru enn mikil álitaefni uppi sem verða til þess að við munum ekki styðja þessi mál en ekki heldur standa í vegi fyrir að þau verði samþykkt. Við munum sitja hjá en erum ánægð með þær breytingar sem gerðar hafa verið. Það er mikilvægt að menn hafi í huga að á síðasta ári voru tekjur Íslendinga af erlendum ferðamönnum 303 milljarðar. 80% af þessum ferðamönnum komu hingað til landsins til að upplifa ósnerta náttúru. Það eru sjónarmið sem við verðum að hafa í huga þegar kemur að þessum málaflokki. Það er af þeim sökum sem við viljum (Forseti hringir.) flýta okkur hægt og við hefðum viljað fá frekari umfjöllun í nefndum um nýlega úrskurði, dóma og álitaefni.