144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

stefna stjórnvalda um lagningu raflína.

321. mál
[10:47]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér leggjum við vinstri græn til að meginflutningskerfi raforku verði metið í hverju tilviki fyrir sig, hvort rétt sé að leggja loftlínu eða jarðstreng, og að þar sé horft til að hægt sé að réttlæta dýrari kostinn, eins og ef línuleið er innan skilgreinds þéttbýlis og innan svæðis þar sem friðlýstar náttúruminjar eru samkvæmt náttúruverndarlögum og að við val á línuleið sé sérstaklega tekið tillit til jaðarsvæða, friðlýstra svæða, samanber til dæmis Vatnajökulsþjóðgarð. Það er tillaga okkar í 2. lið og tel ég mikilvægt að komið verði til móts við hana og hún samþykkt.