144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

raforkulög.

305. mál
[11:05]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Í þeim breytingum sem hér er verið að leggja til á málinu er sveitarfélögum gert mun hærra undir höfði, sem og umhverfissjónarmiðum. Það er gríðarlega mikilvægt. Við höfum verið þátttakendur í þeirri vinnu og ég þakka meiri hluta atvinnuveganefndar fyrir það samstarf. Það er okkur dýrmætt og það hefur bætt þetta mál mjög mikið. Aðkoma þingsins hefur verið tryggð, valkostagreining er lögð fyrir þingið og það eru mikilvægir hlutir. Í nefndaráliti meiri hlutans áréttar fulltrúi Bjartrar framtíðar, Björt Ólafsdóttir, þá skoðun okkar um leið og hún skrifar undir meirihlutaálitið og þær breytingartillögur sem hér eru lagðar til, að ekki sé hægt að leggja línur yfir miðhálendi Íslands án aðkomu þingsins.

Það er algerlega fortakslaus skilningur okkar og ég held að allir hér séu sammála um það. Þess vegna hefði verið mjög ákjósanlegt af meiri hluta þingsins að samþykkja þá breytingartillögu sem var til umfjöllunar áðan.