144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

raforkulög.

305. mál
[11:10]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég harma tóninn í hv. þingmönnum minni hlutans, sumum hverjum, eftir þá miklu vinnu og þá sátt sem hefur náðst um þetta mikilvæga mál þar sem allir lögðu sig fram um að reyna að leiða ágreining í jörð í orðsins fyllstu merkingu. Það er auðvitað markmið okkar allra að sem mest af raflínum geti verið í jörðu í framtíðinni þar sem það er mögulega hægt. En það er samspil margra þátta og einn þeirra er raforkureikningar heimilanna og fyrirtækjanna í landinu sem spila stóran þátt í því. Það þarf að gæta ákveðins jafnvægis.

Í sjö ár hefur Landsnet ekki getað farið í neinar stórframkvæmdir í uppbyggingu á meginflutningskerfi raforku í landinu með tilheyrandi afleiðingum. Það er ekki hægt að afhenda raforku til fyrirtækja á Norðurlandi til að mynda sem vilja nota raforku í meira mæli en raun ber vitni. Við erum að leysa þau mál hér. Það hvernig við förum síðan með það að styrkja meginflutningskerfið á milli landshluta verðum við að ræða í þinginu. Þar takast á (Forseti hringir.) hringleiðin og Sprengisandsleiðin en í dag getum við flutt um 100 megavött á milli landshluta af þeim 2.500 megavöttum sem við erum að framleiða. Slíkt kostar þjóðina milljarða á ári.