144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

slysatryggingar almannatrygginga.

402. mál
[11:14]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það frumvarp sem við greiðum atkvæði um hér og nú er liður í heildarendurskoðun laga um almannatryggingar, nr. 100/2007. Frumvarpinu er ætlað að færa gildandi ákvæði laga um slysatryggingar í sérlög án þess að gera efnisbreytingar á þeim til að gera löggjöfina aðgengilegri. Jafnframt er því ætlað að auðvelda efnislega endurskoðun laganna.

Eins og fram kom í umræðum í gær eru allir nefndarmenn velferðarnefndar á þessu áliti og öllum breytingartillögunum á frumvarpinu. Í umræðunni í gær kom jafnframt fram að frumvarp þetta er nátengt öðrum frumvörpum en þau eru ekki til afgreiðslu hér. Mikil vinna átti sér stað í nefndinni og margar efnislegar umsagnir bárust um málið. Það var mikill samhljómur nefndarmanna UM að vísa þeim til endurskoðunar laganna.

Ég legg til að frumvarpið verði samþykkt til að gera lögin aðgengilegri fyrir þá sem þess þurfa.