144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

slysatryggingar almannatrygginga.

402. mál
[11:15]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta frumvarp er örugglega til bóta en það er áfram bútasaumur við það heildarvelferðarkerfi sem við höfum sem er alltaf verið að bæta við en er í grunninn, eins og kom fram í umræðunni um þetta mál í gær, vegna þess að það voru bara takmarkaðir peningar til að spila úr og eru enn þannig að menn hafa alltaf þurft að vera með bútasaum, bæta við, passa upp á að peningarnir lendi þar sem þeir skipta mestu máli. En ég hvet þingmenn og landsmenn til að skoða umræðuna frá því í gær því að þetta er nokkuð sem við stöndum frammi fyrir núna. Péturs Blöndals-nefndin er að taka saman allan þennan bútasaum og athuga hvort við séum ekki komin á þann stað að við getum verið með heildstæðari nálgun á þetta. Það er stefnan sem virðist vera, það er stefnan sem verður í framtíðinni um velferðarkerfið, um aukinn þrýsting í kjölfarið, sjálfvirkni starfa, vöxt án mikils starfa og svo náttúrlega eldri kynslóða þannig að þetta er örugglega til bóta.

Ég mun sjálfur ekki greiða atkvæði með því þar sem ég get ekki séð það í framkvæmd en vísa aftur til þess að (Forseti hringir.) við erum að færa okkur í rétta átt varðandi heildarendurskoðun á þessum lögum.