144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

slysatryggingar almannatrygginga.

402. mál
[11:17]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið styður Samfylkingin þetta mál. Ég tók þátt í afgreiðslu málsins í velferðarnefnd en ítreka að forsendurnar fyrir slíkri samþykkt eru að heildarendurskoðunin á almannatryggingalögunum og þar með þessum sérlögum um slysatryggingar eigi sér stað fljótt og verði sem allra fyrst. Mikilvægar breytingar þurfa að eiga sér stað sem ekki eru hér inni, m.a. að námsmenn fái slysatryggingu til jafns við til dæmis íþróttamenn sem eru í þessum lögum. Það eru reglur um hvernig greiðslur hækka. Hér er því breytt vegna þess að frumvarpið kom fyrst fram fyrir áramót. Síðan er þetta lagfært með tölum í frumvarpinu. Ef maður skoðar þessar hækkanir yfir lengri tíma eru þær langt undir því sem þær þurfa að vera til að standa undir því að vera slysatryggingar ef menn ætla í alvöru að hafa almennar tryggingar en ekki treysta á einkageirann í sambandi við sjúkdóma og slysatryggingar.

Ég styð þetta sem sagt sem fyrsta skref en treysti á að endurskoðunin fari hratt og vel fram.