144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

lyfjalög.

408. mál
[11:34]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og kemur fram í nefndaráliti var ég fjarverandi við afgreiðslu málsins úr nefndinni á sínum tíma, en mig langar aðeins að eiga orðastað við hv. þingmann almennt um auglýsingar á lyfjum. Við viljum gjarnan að til skila komist upplýsingar um framboð og hvaða möguleikar eru í sambandi við lyf, en ég held að allir séu sammála um að við viljum ekki hvetja til aukinnar notkunar á lyfjum, hvort sem það eru lyfseðilsskyld lyf eða lausasölulyf. Ég skil þetta eins og hv. þingmaður og held að hér sé eingöngu verið að fjalla um lausasölulyfin.

Mig langar að heyra sjónarmið hv. þingmanns einmitt um þetta og þá framhald vinnunnar og almennar reglur um það hvernig fjallað er um lyf og þá líka kannski náttúrulyf og fæðubótarefni. Ef maður les blöðin reglulega sér maður heilu síðurnar þar sem maður hefur enga tilfinningu fyrir því hvað eru lyf og hvað ekki, hvað er æskileg notkun og hvað óæskileg. Það blandast algjörlega saman kynningar og auglýsingar á móti einhverjum læknisfræðilegum umsögnum. (Forseti hringir.) Ég held að þess vegna þurfi að taka málið í heild til frekari skoðunar.