144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

lyfjalög.

408. mál
[11:36]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ástæðan fyrir því að ég er í andsvari er einmitt sú að vekja fyrst og fremst athygli á því að við þurfum að vinna með þetta mál áfram. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að fara inn með þessa heimild sem er í sjálfu sér ekki stórt skref frá því sem verið hefur. Við erum að fjalla hér um að leyfa sjónvarpinu að koma inn með auglýsingar á verkjalyfjum og bólgueyðandi lyfjum. Eins og við segjum er það viðbót við netið og aðra fjölmiðla þannig að það er kannski ekkert órökrétt í því að sjónvarpið bætist við, en það þarf að gæta þess að menn séu ekki að búa til einhverja mynd af þessum lyfjum sem hluta af daglegu lífi. Það er varað við daglegri notkun margra þessara lausasölulyfja í lengri tíma. Þá er mikilvægt að þau skilaboð komi líka, að ekki sé endilega mælt með að menn noti verkjalyf eða bólgueyðandi lyf enda eru sum þeirra gagnrýnd sérstaklega, að þau geti verið hættuleg ef þau eru notuð í ákveðnu magni o.s.frv.

Vandinn er þarna áfram og ég beini því til nefndarinnar að við skoðum þetta áfram þó að þetta frumvarp fari í gegn.