144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

lyfjalög.

408. mál
[11:39]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir spurningu frá hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur. Ég var í sömu vandræðum þegar ég var að kynna mér þetta mál í gærkvöldi, sit ekki í nefndinni og kem kannski að því heldur seint, en mér finnst þetta áhugavert. Ég skildi ekki alveg hvað var verið að þvælast með lagagrein sem snýr að lyfseðilsskyldu lyfjunum í þessum málum. Það er verið að tala um að leyfa auglýsingar á lausasölulyfjum í sjónvarpi eins og hefur verið leyft í öðrum miðlum. Ég get svo sem alveg tekið undir að kannski er asnalegt að skilja sjónvarpið út undan en við þurfum að vita hvort verið er að tala um að allar upplýsingar eigi þá að birtast í sjónvarpsauglýsingum. Ég get ekki skilið að það eigi að vera þannig.

Mér finnst alveg umdeilanlegt hvort yfir höfuð eigi að leyfa auglýsingar á lausasölulyfjum og vil því spyrja: Er með einhverjum hætti tryggt að upplýst sé um að minnsta kosti þrjár algengustu aukaverkanirnar á lyfjum samhliða því sem verið er að auglýsa lyfin? Það fyndist mér rétt að gera út frá neytendasjónarmiði.