144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

lyfjalög.

408. mál
[15:02]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Það frumvarp sem við höfum nú til umfjöllunar lætur ekki mikið yfir sér og virðist vera tiltölulega einfalt. Svo er það oft að einfaldir hlutir eru heldur flóknari en þeir kannski virðast. Það kom fram í andsvörum strax í morgun að þingmenn hafa ábyggilega breytilegar skoðanir á þessu frumvarpi og jafnvel svo, virðulegi forseti, að mér fannst framsögumaður nefndarálitsins, hv. þm. Páll Jóhann Pálsson, eiginlega svara hér spurningu minni. Eftir því sem ég skildi svar hans stangast það nokkuð á við nefndarálit með breytingartillögu sem ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að ég hafði ekki lesið nógu gaumgæfilega en nú hef ég gert það. Það snertir 1. gr. frumvarpsins sem er um 14. gr. laganna þar sem segir:

„Í lyfjaauglýsingu skal tilgreina nafn framleiðanda, heiti lyfs, virk efni og helstu ábendingar og frábendingar er varða notkun hlutaðeigandi lyfs. Upplýsingar um pakkningastærðir, verð, stærð skammta og helstu atriði önnur um notkun og aukaverkanir skal tilgreina í lyfjaauglýsingunni eða birta vísun á fylgiseðil með lyfinu á vef Lyfjastofnunar.“

Þeir sem gáfu umsagnir um þessa grein hafa sagt að það væri ekki alveg skýrt í þeirra huga hvort þetta ætti eingöngu við um lyfseðilsskyld lyf sem rætt er um í 16. gr. eða hvort þetta ætti einnig við um lausasölulyfin sem rætt er um í 2. gr. frumvarpsins því að nú er verið að heimila sjónvarpsauglýsingar á lausasölulyfjum. Það er kannski ekki óeðlilegt að þessi ruglingur hafi orðið og mér skildist á svari framsögumannsins í morgun að það að tilgreina ætti allar þessar pakkningastærðir og allt þetta eða vísa í fylgiseðil ætti við um öll lyf.

Hins vegar kemur skýrt fram í nefndaráliti frá velferðarnefnd um auglýsingar, þar segir orðrétt, virðulegi forseti, þegar búið er að fara í gegnum lagagreinar og þar fram eftir götunum, með leyfi forseta:

„Nefndin telur í ljósi þessa að túlka beri 2. mgr. 14. gr. lyfjalaga þannig að hún eigi aðeins við um auglýsingar fyrir heilbrigðisstéttir sem ávísa og dreifa lyfjum og að 1. gr. frumvarpsins taki því ekki til auglýsinga á lausasölulyfjum fyrir almenning.“

Þá er alveg ljóst að þessi grein, 1. gr. sem kveður á um hvað skuli tilgreina í auglýsingunum, á eingöngu við um lyfseðilsskyld lyf. Það skiptir máli að þetta sé alveg ljóst.

Hins vegar á í reglugerð að setja þau skilyrði, ef svo má að orði komast, sem þarf að uppfylla um auglýsingar á lausasölulyfjum og af því að það á að birta í reglugerð mun það vera ástæðan fyrir því að nefndin leggur líka til að gildistakan sé ekki um leið og lögin verða samþykkt heldur í haust. Það er til þess að gefa heilbrigðisráðherra tækifæri til að setja nú þegar reglugerð um að heimila þetta í sjónvarpi. Mér fannst skipta máli að þetta væri alveg ljóst og það virðist vera það.

Með þessari grein um lyfseðilsskyldu lyfin er hins vegar verið að gera svolítið auðveldara að auglýsa, ef svo má segja. Þeir geta annaðhvort birt pakkningastærðir og allt sem við á að eta í því eða þeir geta vísað í fylgiseðilinn sem er á vef Lyfjastofnunar. Þá segir fólk kannski: Þetta er ekki nógu gott því að fólk kann kannski ekki á vef Lyfjastofnunar en þá þurfum við líka að hugsa til þess að þetta fjallar einungis um auglýsingar í blöðum sem eru sérstaklega gefin út fyrir heilbrigðisstéttir. Þetta beinist eingöngu að heilbrigðisstéttum og heilbrigðisstéttir ættu að vita hvað fylgiseðlar eru og hvernig hægt er að nálgast þá. Ég segi bara eins og er að ég hef ekkert við þetta að athuga meðan þetta er alveg ljóst.

Ég veit ekki hvort á að kalla það meginefni frumvarpsins að leyfa sjónvarpsauglýsingar á lausasölulyfjum sem eru til að gera ekki upp á milli hinna ýmsu miðla. Mér skilst að lyf séu auglýst á netinu jafnvel og það má náttúrlega auglýsa þau í blöðum. Nú er sem sagt verið að heimila að þær séu leyfðar í sjónvarpi.

Hérna er haft orðrétt eftir þáverandi heilbrigðisráðherra þegar hann mælti fyrir frumvarpinu sem varð að lyfjalögum:

„Mér er sagt að það hafi komið fram í heilbrigðis- og trygginganefnd Alþingis þegar hún hafði málið til meðferðar í fyrra að ef léki einhver vafi á því að auglýsing lausasölulyfja í sjónvarpi væri ekki heimil yrði að taka af þann vafa með lagasetningu. Þar sem á því leikur vafi nú að áliti heilbrigðisráðuneytisins er ekki um annað að ræða en leggja fyrir nefndina tillögu um að af því verði tekinn allur vafi og er það gert í 1. gr.“

Þá er allur vafi tekinn af um að það má auglýsa lausasölulyf í sjónvarpi.

Virðulegi forseti. Auðvitað á fólk ekki að taka of mikil lyf. Auðvitað ber að vara við því. Ég sé til dæmis að í áliti embættis landlæknis segir að auglýsingar á lyfjum muni hugsanlega leiða til aukinnar notkunar lyfja vegna þess að til þess séu auglýsingar og þess vegna gjaldi landlæknisembættið varhuga við því að leyfa þessar auglýsingar. Ég gat ekki skilið þetta öðruvísi. Það má svo sem segja að það sé nokkuð til í því en auglýsingar auka líka samkeppni og ég held að stór vandi okkar Íslendinga varðandi lyf sé skortur á samkeppni. Af hverju segi ég skortur á samkeppni? Vegna þess að fáum lyfjum er hleypt inn á markaðinn vegna þess að þannig hefur verið lesið úr lyfjalögunum að það þurfi markaðsleyfi fyrir hvert einasta lyf sem hingað kemur inn. Að mínu áliti erum við þar á sameiginlegum markaði alveg hreint eins og á við um aðra vöru. Auðvitað verður að gæta öryggissjónarmiða sem þarf alltaf að gera með lyf, en ein ástæðan fyrir því að lyfjaverð er svo hátt hér á landi er sú að hér er mjög lítil samkeppni. Á það þurfum við að líta alvarlega. Þess vegna segi ég með lausasölulyfin að þau auka á samkeppnina. Þau mundu þess vegna hugsanlega leiða til lægra verðs vegna þess að samkeppni leiðir til lægra verðs.

Það kemur fram í ýmsum umsögnum að það þurfi að endurskoða alla löggjöfina um auglýsingar á lyfjum. Ég get verið hjartanlega sammála því en ég vil líka segja að það þarf að endurskoða öll lyfjalögin. Þau eru sett árið 1994, held ég, þeim var breytt árið 2000 og það þarf að endurskoða þau öll.

Ég vann í þessum bransa í nokkur ár og verð að segja að það sem kom mér mest á óvart í þeim störfum var hversu mikla áherslu þeir sem versla með lyf og flytja þau inn til landsins, hvort sem það eru framleiðendur eða markaðsleyfishafar, leggja á það að halda þessum litla markaði sérgreindum. Ég held að það sé vegna þess að þá geta þeir haldið uppi því háa verði á lyfjum sem hér er, enda vitum við að sá árangur sem hefur náðst hefur allur náðst með handafli. Nú er ég ekki að tala um það að samheitalyf eru almennt ódýrari en frumlyf og þar fram eftir götunum heldur er ég að tala um þann árangur sem hérna hefur náðst í að lækka verð á lyfjum, sérstaklega frumlyfjum. Það hefur allt verið gert með boðvaldi um það að lyf mættu ekki vera hærri en meðalverð á Norðurlöndum eða eitthvað slíkt. Það hefur aldrei verið gert þannig að þeim sem selja lyfin detti í hug að hafa þau ódýrari. Það er einfaldlega vegna þess að lyfjaúrval hérna er minna en í löndunum í kringum okkur í mörgum tilfellum og vegna þess að það hentar þeim sem eru hér á markaði að halda markaðnum litlum og verðinu háu. Þetta hafa menn komist upp með.

Þess vegna tel ég að það sé ekki bara brýnt. eins og kemur fram í ýmsum umsögnum, að endurskoða lögin um lyfjaauglýsingar. Það er nauðsynlegt að endurskoða lyfjalögin öll. Það tel ég vera.

Þetta er hvorki stórt né mikið frumvarp og lætur ekki mikið yfir sér en þá finnst mér líka rétt að benda á að um það bárust nokkrar umsagnir og þó að greinarnar séu bara tvær sem við erum að fjalla um eru tvær umsagnir sem hvor um sig er upp á einar fimm blaðsíður til að færa fram málstað fyrir einhverju. Umsagnirnar eru þó 12 í allt. En hverjir eru með þessar tvær ítarlegu umsagnir? Annars vegar Lyfjastofnun sem færir fram málstaðinn fyrir því á fjórum og hálfri síðu að það þurfi að passa upp á þetta allt og reglurnar, það megi ekki breyta miklu og þar fram eftir götunum. Hún skýrir þetta allt saman í miklum smáatriðum. En frá hverjum er hin umsögnin, virðulegi forseti, upp á næstum fimm síður? Frá Viðskiptaráði Íslands. Það vill gefa allt frjálst. Þetta eru tveir heimar og þetta eru þeir tveir heimar sem skilja hvað það skiptir miklu máli að hreyfa við lyfjalögunum. Það þarf að hreyfa við þeim. Auðvitað þurfum við alltaf að gæta fyllsta öryggis og fyllstu varúðar. Auðvitað viljum við ekki að fólk bryðji lyf daginn út og daginn inn, en lyf eru ekkert mikið öðruvísi en hver önnur vara. Þau eru ekkert mikið öðruvísi. Sum lyf má ekki selja nema gegn lyfseðli, það er aldeilis öryggisatriði að mega ekki fara út í búð og kaupa eitthvað nema maður sé með það uppáskrifað frá lækni. Þar ætti öryggis að vera gætt. Svo eru önnur lyf lausasölulyf og auðvitað á fólk ekki að borða þau daginn út og daginn inn, en við verðum líka að treysta fólki fyrir því að hafa svolítið vit fyrir sjálfu sér. Við eigum ekki alltaf að vera með boð og bönn um hver má gera hvað klukkan hvað.

Núna er sem sagt verið að leyfa þessi lausasölulyf. Hvernig lyf eru það? Það eru til dæmis magnyl og íbúfen. Auðvitað er ekkert hollt að borða íbúfen og fá sér rauðvínsglas, ég tala nú ekki um að borða mikið íbúfen og drekka mikið rauðvín, en þetta (Gripið fram í.) er nokkuð sem við á Alþingi leyfum ekki eða bönnum fólki.

Ég bendi líka til dæmis á hvar má selja lausasölulyf. Það má bara selja lausasölulyf í apótekum nema nikótínlyf, veikari gerðina, 2 milligrömm, þau má selja líka í búðum. Það var leyft, væntanlega á þeirri forsendu að þá væri auðveldara fyrir fólk að nálgast þau lyf og það hætti frekar að reykja. Í einni umsögninni, frá Viðskiptaráði einmitt, er línurit sem sýnir annars vegar söluaukningu á nikótínlyfjum og hins vegar hvernig reykingar hafa minnkað. Það er bara allt hið besta mál. Sumum þykir það ábyggilega léttúðugt, en mér þykir það ekki. Ég segi: Af hverju má ekki selja höfuðverkjatöflur í búðum? Það má í Danmörku. Af hverju má ekki gera það? Það sjá allir hvaða traffík það veitir inn í lyfjabúðirnar. Ef fólk er með höfuðverk og ætlar að kaupa sér magnyl fer það inn í lyfjabúðina. Af hverju má ekki selja einföldustu lausasölulyfin í venjulegum matvöruverslunum eða venjulegum búðum? Ég spyr vegna þess að um helgar og á kvöldin er stundum svolítið langt að fara til að verða sér úti um þessa vöru.

Ég styð þetta frumvarp sem sagt eins og það er, en legg áherslu á það, virðulegi forseti, að það er mikil nauðsyn á því að endurskoða lyfjalögin öll. Ég skora á heilbrigðisráðherra að leggjast í þá vinnu.