144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

lyfjalög.

408. mál
[15:27]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Hv. þingmaður kom einnig inn á það í ræðu sinni að hún teldi nauðsynlegt að fram færi heildarendurskoðun á lyfjalögum. Ég held að ég sé alveg sammála því.

Það barst svolítið í tal í nefndinni hvort ekki þyrfti að setja skýrari reglur um það sem kallast náttúrulyf eða jurtalyf og ýmiss konar fæðubótarefni. Við sjáum í mörgum fylgiblöðum með dagblöðum lífsstílsgreinar eða auglýsingar; það er oft erfitt að átta sig alveg á hvað er þar á ferðinni. Telur hv. þingmaður að í endurskoðun á lyfjalögum eigi að taka einnig upp það sem er kallað óhefðbundin lyf, náttúrulyf eða jurtalyf? Telur þingmaðurinn að slíkt eigi heima í heildarendurskoðun til þess að við fáum skýra heildarmynd yfir það sem getur á einhvern hátt talist sem lyf og jafnvel eitthvað sem er ekki bara skilgreint af Lyfjastofnun núna sem lyf? Á það að vera með?