144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

lyfjalög.

408. mál
[15:54]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki alveg sammála þessu. Ég held að ef internetið hefði verið komið til almennrar notkunar þegar lögin voru sett hefðu auglýsingar einfaldlega verið heimilaðar og sjónvarp ekki tekið út sérstaklega. Ég er alveg sammála þingmanninum um að verðugt sé að taka umræðuna um hvort leyfa eigi auglýsingar eða ekki, en ég held að það skjóti mjög skökku við ef við ætlum að leyfa auglýsingar í dagblöðum en ekki á internetinu í nútímasamfélagi. Ég held því að ef vilji stendur til að breyta löggjöf varðandi auglýsingar á lyfjum sé það annaðhvort eða, en ekki takmörkun gagnvart ákveðnum miðlum og síst af öllu gagnvart internetinu, sem er oft sjálfstæðasti og besti miðillinn fyrir almenning til að leita sér fljótlega upplýsinga á.