144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

lyfjalög.

408. mál
[15:57]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og hv. þingmaður man voru mjög fjörlegar umræður um þetta í velferðarnefnd. Við ræddum málið mikið og það hefur augljóslega verið rætt áður á Alþingi, fyrir 50 árum. Ég held að mjög erfitt sé að takmarka auglýsingar á fæðubótarefnum og ýmsum lífselexírum mikið. Eftirlit með auglýsingum er þannig að það eru ákveðnir þættir, til að mynda má ekki staðhæfa um eiginleika sem ekki er hægt að sanna og slíkt, og ég held að í raun og veru hafi verið of mikil linkind við að passa upp á það.

Svo er hitt annað mál að við búum í samfélagi þar sem við viljum að fólki sé frjálst að nota frá 4 þús. kr. og upp í 10 þús. kr. í eitthvað sem það trúir á (Forseti hringir.) og það er kannski hverjum í sjálfsvald sett hvað hann er tilbúinn til að láta narra sig mikið.