144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

lyfjalög.

408. mál
[16:07]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, ég verð að svara því neitandi. Ég finn ekki hjá mér knýjandi þörf til þess að fara í þann leiðangur að banna auglýsingar á lausasölulyfjum. Það er samt mikilvægt að hafa í huga að lyf eru engin venjuleg vara og við eigum ekki að fjalla um þau sem venjulega vöru. Við eigum líka að hafa í huga viljann til frekari auglýsinga, ef við löggjafinn heimilum frekari auglýsingar þá gerum við það ekki út frá almannahagsmunum. Ég veit það ekki, en ég er nánast sannfærð um að það er knúið á um þessar breytingar frá þeim sem græða á frekari sölu lyfja. Við skulum vera með opin augu gagnvart því. Við heimilum þetta í flestöllum öðrum miðlum og ég tel því ekki eðlilegt að mismuna á milli miðla, en ef það væri verið að ræða í dag spurninguna hvort það mætti auglýsa lyf, (Forseti hringir.) það væri bannað, þá er ég ekki viss um að ég mundi styðja auglýsingar.