144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

lyfjalög.

408. mál
[16:23]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Undir umræðunni sem ég hef setið í dag setur að mér hroll. Ég er þeirrar skoðunar og ekki bara ég heldur lög, bæði innlend og erlend og ýmsar tilskipanir frá Evrópusambandinu sem við höfum þurft að taka upp, að verslun með lyf er allt annað en verslun með almenna vöru. Um verslun með lyf gilda strangar reglur sem eiga allar að stuðla að því að þau séu seld og meðferð þeirra sé á grundvelli almennra sjónarmiða um lýðheilsu og almenn heilbrigðissjónarmið og á að tryggja skynsamlega umgengni og meðferð á lyfjum og á að draga úr ofnotkun þeirra.

Hv. þingmaður hefur stundum haldið hér margar glæstar ræður þar sem hún hefur vísað til skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sem á sínum tíma olli uppnámi og undrun en líka gleði. Þar var lögð mikil áhersla á að stjórnmálamenn ættu að hlíta ráðleggingum sérfræðinga. Hverjir eru sérfræðingarnir í þessu máli? Ætli það sé ekki landlæknir? Svo lesa menn hér upp mjög skýrar ábendingar frá landlækni um að embættið sé á móti auglýsingum á lyfjum. Embættið segir að fyrir liggi erlendar niðurstöður rannsókna sem bendi til þess að auglýsingarnar ýti undir notkun lyfja. Hvers vegna í ósköpunum ættum við þá að fara að útvíkka leyfi og heimild til þessara auglýsinga? Ég bara spyr. Hver er skynsemdin í því? Á að fara að leyfa auglýsingar í sjónvarpi á lausasölulyfjum út af því Samkeppniseftirlitið hefur sagt eitthvað og vegna þess að þeir sem selja lyfin hafa æmt og skræmt? Ef menn vilja hafa samræmi í þessum galskap og fara að ráðleggingum sérfræðinga og landlæknisembættisins þá banna þeir auglýsingar í dagblöðum, það er svo einfalt. Hvað segir hv. þingmaður um þessa einföldu og kannski asnalegu röksemdafærslu mína? (Forseti hringir.) Hún byggir ekki á því að hafa lesið þetta frumvarp því að ég hef ekki lesið stafkrók í því, ég hef bara hlustað.