144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

lyfjalög.

408. mál
[16:28]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var mjög núanseraður rökstuðningur og einungis á færi vitsmunavera. Ég hef mjög einfalda sýn á þetta. Ef landlæknir telur auglýsingar óæskilegar af því að þær ýti undir notkun og ofnotkun lyfja þá hlusta ég á það embætti. Ekki það að ég ætli að vera með oflæti eða steigurlæti, eins og mér hættir stundum til ef sá gállinn er á mér, en ef ég skil röksemdafærsluna rétt hjá hv. þingmanni þá held ég að það sé mjög erfitt fyrir hana að styðja frumvarpið með þennan fyrirvara á því og ætla svo að greiða því atkvæði þegar í reynd kemur fram í máli hennar að hún hefur sterkar efasemdir ef hún er hreinlega ekki haldin andstöðu við meginefni frumvarpsins, sem er að leyfa auglýsingar á þessum varningi í sjónvarpi.

Í annan stað þá á samt með einhverjum hætti að koma áfram upplýsingum um aukaverkanir af lyfjum. Ég les aldrei eða mjög sjaldan þessa seðla sem eru yfirleitt margar síður með einhverjum lyfjum sem maður þarf stundum að taka tímabundið, en ég gerði það um daginn og mér dauðbrá því að það kemur fram að lyf sem maður hélt að væri bara allt í lagi með og menn taka hefur alls konar aukaverkanir ef svo kynni að vera að menn væru að taka einhver önnur lyf með. Þetta er því allt saman stórhættulegt.

Síðan kom hér fram fyrr í umræðunni að það ætti kannski að leyfa mönnum að gefa upplýsingar með því að vísa á einhverjar síður landlæknis. Ja, herra trúr, hver nennir því og hver gerir það í dag? Þegar búið er að kaupa einhver lyf þá sést þetta ekki fyrr en í fyrsta lagi þegar lyfin hafa verið tekin úr umbúðunum og þá er búið að kaupa þau. Á þá að fara á einhvern vef? Ég held að þetta sé ekki þannig.

Að því er fæðubótarefnin varðar, af því að ég hef óskaplega gaman af að lesa þær auglýsingar en kaupi mér aldrei neitt eftir þeim, þá er það nú þannig að þau efni skaða engan. Svo liggja fyrir rannsóknir sem sýna að það er ekki neitt í heiminum úr þessum fæðubótarefnum sem bætir heilsu manna (Forseti hringir.) nokkuð nema bláber sem ég tek á hverjum degi og lýsi sem ég tek líka á hverjum degi.