144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

lyfjalög.

408. mál
[16:39]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki alveg viss um að ég skilji að hverju hv. þingmaður er að spyrja mig, það ræðst af takmörkunum mínum hér þetta síðdegið. Ég get þó fullvissað hv. þingmann um að það var ekki af neinni léttúð sem þetta mál var rætt í nefndinni, heldur þvert á móti. Talsverð umræða var í nefndinni um að lyf væru ekki eins og hver önnur markaðsvara og ekki mætti umgangast þau sem slík vegna þess að ef þeirra er neytt í röngum skömmtum eða sem lækningu við einhverjum tilteknum kvillum þar sem þau eigi ekki við þá geta þau verið mjög hættulegt sem og að það samræmist ekki lýðheilsusjónarmiðum að neyta lyfja sem ekki er þörf fyrir. Um þetta var mikið rætt og um þetta var mikið spurt þegar gestir komu á fund nefndarinnar.

Hvenær á svo að segja að það sé komið nóg af umfjöllun? Það er alltaf erfitt að draga eitthvert skýrt strik varðandi það og örugglega mjög mismunandi sjónarmið hvað það varðar. Ég tel að hv. velferðarnefnd hafi lagt sig eftir því að skoða þetta kirfilega.