144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

lyfjalög.

408. mál
[16:41]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði áðan er þetta frekar flókið mál þó að það láti lítið yfir sér. Ég er einn af þeim sem misskildu þetta aðeins í morgun og það færi kannski ágætlega á því að nefndin skýrði aðeins betur muninn á 14. gr. og 16. gr.

Ég ætla að stoppa aðeins við 14. gr., sem 1. gr. í frumvarpinu breytir, sem tekur til tímarita fagstétta og auglýsinga í þeim. Ég geri svo sem engar athugasemdir við að fagstéttir fái að fylgjast með lyfjum á markaði og kannski er það mikilvægt.

Mig langar hins vegar að stoppa aðeins meira við 16. gr. Í frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Markmið frumvarpsins er að afnema þann greinarmun sem gerður er á fjölmiðlum þegar kemur að auglýsingum lausasölulyfja.“

Ég held að það sé ágætt að reyna að uppfylla þetta markmið en að mínu viti erum við að uppfylla það í ranga átt. Við ættum að reyna að draga úr notkun lyfja frekar en að hvetja til notkunar. Markmiðið með auglýsingum er hins vegar að auka notkun.

Mig langar að styðjast við nýlegt verkefni sem var unnið í markaðs- og siðfræði í háskólanum sem snertir á svipuðu. Reyndar eru dæmin um sykur en þetta eru siðferðisleg málefni í markaðsstarfi. Með miklu framboði og samkeppni á ákveðnum markaði vilja allir koma sinni vöru á framfæri. Það er misjafnt hversu langt er gengið og það er sköpuð eftirvænting til að auka eftirspurn. Í bók eftir DeGeorge eru sett fram lögmál sem snúa að markaðssetningu í auglýsingum og umrætt verkefni fjallar um það.

Fyrsta lögmálið er um siðleysi ósannra, villandi og blekkjandi auglýsinga. Framleiðandinn fer með villu annaðhvort viljandi eða óviljandi. Án þess að fara í of mikil smáatriði vil ég nefna dæmi um markaðsherferð hjá sælgætisfyrirtækinu Nóa-Síríus. Það ætlaði að koma á markað vöru sem heitir Aktív og var útlistuð sem mysuprótein sem væri gott milli mála og væri hollustuvara. Á daginn kom að þetta er alveg eins og önnur sykruð vara sem fyrirtækið selur nema með viðbættu próteini. Ég held að þarna sé eitt dæmi um það hvað markaðsöflin fara rangt með í þeim tilgangi að selja vörur sínar. Ef við berum innihaldslýsingu á Aktív, sem er sælgæti, saman við Trompbita sjáum við að magn sykurs og kolvetna er svipað en Aktív inniheldur aukaprótein og var auglýst sem hollur kostur milli mála.

Ég hef áhyggjur af því að margir framleiðendur reyni að blekkja neytendur með því að gera auglýsingar þannig að fólk mistúlki þær og dragi þar af leiðandi rangar ályktanir. Ég er hræddur um að þetta muni gerast þegar við komum með lyfjaauglýsingar í sjónvarp. Þegar þær eru í útvarpi eða dagblöðum eru ekki eins mikil tækifæri fyrir framleiðendur að koma eins miklum skilaboðum á framfæri. Hún gæti verið hálfsönn, verið trúverðug, ekki blekkjandi, ekki villandi, og samt siðlaus.

Annað lögmálið, með leyfi forseta, fjallar um siðleysi þess að ráðskast með fólk og þvinga það með auglýsingum. Hérna er verið að segja að markmið auglýsinga sé fyrst og fremst það að sannfæra neytendur um að kaupa vöruna og þjónustuna. Ég ætla að koma með dæmi um þetta, sem er reyndar tengt sykri eins og þetta verkefni fjallar um. Í bíóhúsum er yfirleitt gert hlé til að fólk kaupi meira sælgæti í sjoppunni. Einnig er í hléi stundum sýnd auglýsing frá sælgætisfyrirtæki með það að markmiði að auglýsingin nái til neytenda, til að þeir finni hjá sér þörf til að kaupa þessa sykurvöru. Ef við heimfærum þetta yfir á það sem ég þekki hvað best, æfingar, er búið að troða því inn í hausinn á allmörgum íþróttamönnum að þeir nái ekki árangri nema neyta fæðubótarefna. Ef maður stundar æfingar eru auglýsingaöflin búin að kynna vöruna þannig að menn geti ekki náð árangri nema neyta fæðubótarefna. Vegna þess að þetta er svona í þeim heimi sem ég þekki er ég hræddur um að þetta muni líka gerast í lyfjaheiminum, að mönnum verði talin trú að þeir muni ekki geta klárað æfingu eða náð fullri endurheimt fyrir næstu æfingu nema taka til dæmis bólgueyðandi. Ég er hræddur um þetta út frá þeim verkefnum sem við sjáum í háskólanum.

Þriðja lögmálið í þessari bók fjallar um siðferði forræðishyggju í auglýsingum. Sumar vörur eru langt frá því að vera hollar fyrir neytendur. Fyrir framan mig er ég með dæmi um að reykingar séu hættulegar heilsu fólks. Alkóhólismi er afleiðing áfengisneyslu. Það eru örugglega fleiri sem ánetjast lyfjum en við vitum af. Ég þekki persónulega fólk sem hefur ánetjast lyfjum. Ef við berum þetta saman við reykingar og áfengisneyslu eru þær vörur bannaðar með lögum, a.m.k. í sjónvarpi. Hér stendur einnig að árið 2011 hafi ekkert bannað það að auglýsa pilsner, en þá lagði hæstv. þáverandi innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson fram frumvarp um að áfengislöggjöfin yrði hert og að bannað yrði að selja óáfenga drykki sem seldir væru í umbúðum sem væru nauðalíkar umbúðum áfengra drykkja. Þegar léttöl lítur út alveg eins og bjór er verið að auglýsa tvær vörur í einu. Ef við heimfærum þetta yfir á það frumvarp sem við erum með núna held ég að fæstir hafi vit á því hvað þeir eru að kaupa í apótekum. Mörg lyf eru mjög svipuð með svipuðum verkunum en mismunandi aukaverkunum. Já, ég er einnig hræddur um þetta.

Fjórða lögmálið fjallar um að það sé siðlaust að banna ákveðnar tegundir auglýsinga. Ég ætla ekki að fara mikið út í það, dæmið sem er nefnt hérna er gróft kynlífsatriði til að auglýsa vöru. Í stjórnarskrá Íslands segir að tjáningarfrelsinu megi aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. Að öllu þessu sögðu held ég að óhætt sé að segja að þegar lyfjalögin voru sett árið 1994, þegar aðeins var markaðssett í dagblöðum, útvarpi og sjónvarpi, hefði markaðssetning á internetinu verið bönnuð ef hún á hefði verið jafn mikil og hún er orðin nú. Ég tek samt fram að vitaskuld er það barn síns tíma að banna bara í sjónvarpi það sem er leyft alls staðar annars staðar. Ég held þó að í þessu frumvarpi séum við að fara í ranga átt, en vil einnig geta þess hér og nú að almennt er ég ekki hlynntur því að banna hluti. Ég er almennt þeirrar skoðunar að fólk eigi að taka ábyrgð á sér sjálft, ábyrgð á því hvað það setur ofan í sig eða hvað það gerir í lífinu. Ég er bara hræddur um að markaðsöflin muni yfirtaka þetta og reyna að villa á sér heimildir. Auglýsingar hafa áhrif. Bestu vörurnar eru ekki endilega þær sem seljast mest, heldur kannski þær sem eru best auglýstar. Það verður þá kannski til þess að venjulegt fólk hættir að leita ráðlegginga lækna og fer frekar eftir því sem er auglýst mest eða því sem er vinsælast.

Einhver hv. þingmaður nefndi áðan að þetta væri krókaleið og ég er hræddur um að ef við förum þessa krókaleið komumst við ekki til baka í heildarskoðun með það að markmiði að draga úr notkun lyfja og draga úr því að þetta verði auglýst.

Ég er með í huga eitt slagorð sem mér finnst siðferðislega kolrangt. Það hangir á skilti í Síðumúla þar sem stendur: Íbúfen, njóttu stundarinnar. (Gripið fram í.) Ég er mjög hræddur um að þessi slagorð verði fleiri þegar þau komast í sjónvarpið. Ég ætla að hafa þetta mín lokaorð: Íbúfen, njóttu stundarinnar.