144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

lyfjalög.

408. mál
[16:58]
Horfa

Haraldur Einarsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þetta seinna andsvar. Já, ég held að það væri hægt að gera meira, t.d. með táknum eða með því að setja þrjár verstu eða þrjár algengustu aukaverkanirnar með stærri stöfum utan á kassann eða umbúðirnar sem lyfin eru seld í.

Hv. þingmaður nefndi áðan að lyf væru ekki venjuleg neysluvara. Það eru nokkrar aðrar vörur sem eru ekki venjulegar neysluvörur, eins og áfengi og tóbak. Auglýsingar á þeim vörum eru bannaðar, af því að auglýsingar hvetja til aukinnar notkunar og neyslu. Á sömu forsendum, af því að þetta er ekki venjuleg neysluvara, vil ég ekki að neysla þessara lyfja aukist, sérstaklega af því að það getur verið, eins og ég nefndi í ræðunni, á fölskum forsendum í krafti markaðsstarfs.