144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

lyfjalög.

408. mál
[17:06]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að kveðja mér hljóðs í þessari áhugaverðu umræðu. Ég get í sjálfu sér vel skilið það markmið að heimila auglýsingar í sjónvarpi þar sem auglýsingar á lausasölulyfjum eru nú þegar heimilaðar í öllum öðrum miðlum, það er kannski rökrétt skref, en ég get líka tekið undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram að það má spyrja að því hvort auglýsa megi vöru eins og lyf eins og hverja aðra vöru.

Hér hefur verið bent á að ef það megi auglýsa lyf þá gæti það aukið samkeppni og það sé gott fyrir neytendur. Ég skal vera fyrsta manneskjan til að taka undir það að aukin samkeppni er góð fyrir neytendur og mikilvægt að margir aðilar keppi um hylli neytenda. En ég set ekki endilega samasemmerki milli þess að eftir því sem seljendur auglýsi meira auki það endilega samkeppnina.

Ég ætla að rifja upp að fyrir nokkuð mörgum árum gerði ég litla verðkönnun á augndropum. Það er afar dýr vara og ég komst að því að í Danmörku og Svíþjóð var verðið lægra og þar var meira úrval af augndropum sem eru notaðir við frjóofnæmi. Ég fór að garfa í þessu og velta fyrir mér af hverju þessar ódýrari tegundir sem seldar voru í Svíþjóð og Danmörku væru ekki seldar á Íslandi. Þá kom í ljós að það voru einhverjar reglur um það og ég átti samtöl við Lyfjastofnun um það. Ég man ekki nákvæmlega hvað það var sem kom í veg fyrir söluna, það var eitthvað talað um að augndroparnir væru ekki alveg nógu góðir. En ef þeir eru leyfðir í Danmörku og nógu góðir fyrir danska neytendur eða sjúklinga þá hlýt ég að spyrja að því af hverju megi ekki leyfa sömu vörur hér. Ég held að það sé kannski miklu frekar vandamál að við leyfum ekki nógu breitt vöruúrval. Að sjálfsögðu þarf alltaf að passa að lyfin séu örugg eins og hægt er og við munum nú eftir gigtarlyfinu Vioxx sem var beinlínis tekið af markaði þegar í ljós komu alvarlegar aukaverkanir. Það eru til nokkur dæmi um slíkt þannig að það er um að gera að stíga varlega til jarðar, en ég get ekki séð að það að menn fari offari í auglýsingum auki samkeppni. Ef ég þarf eitthvert lyf þá fer ég í apótekið og ég skoða hvað er til og ef til eru tvær tegundir þá segir það mér að það er ekki samkeppni á markaði og ef það eru til fimm tegundir þá er það strax skárra.

Oft er rætt um það hér á Íslandi að lyfjanotkun sé meiri en góðu hófi gegnir og framsögumaður orðaði það einhvern veginn þannig áðan að fólk færi ekkert að taka lyf „af því bara“, keypti ekki lyf bara að gamni sínu. Það má kannski taka undir það en á sama tíma þurfum við að minnka lyfjanotkun og ef við segjum að nauðsynlegt sé að minnka lyfjanotkun þá erum við í rauninni að segja að fólk sé í einhverjum og mörgum tilfellum að taka lyf að óþörfu. Þetta finnst mér vera verkefni.

Það sem ég vil leggja megináherslu á er að mér finnst það mjög einkennilegt ef þeir sem selja og auglýsa lausasölulyf þurfi ekki tilgreina aukaverkanir, mega lýsa jákvæðu eiginleikunum sem lyfin hafa en þurfa ekki að upplýsa um það hvaða skaðlegu áhrif lyfin hafa. Meira að segja þegar kemur að matvælum þá er reynt að ná utan um þetta með því að setja reglur um heilsufullyrðingar, þannig að ef framleiðandi segir: Salt er lítið eða salt skert, þá sé ákveðnum skilyrðum fullnægt. Ég veit ekki hvort það eru svipaðar reglur um það þegar kemur að lyfjum. Ég er fylgjandi því að fólk taki ábyrgð á eigin heilsu og það sé á þess ábyrgð að velja og hafna en það getur ekki axlað þá ábyrgð ef það fær ekki upplýsingarnar. Hvar eru upplýsingarnar? Þær eru á einhverju bréfsnifsi inni í pakkningunni eins og hefur komið fram hérna, maður opnar og les þær eftir að maður er búinn að kaupa vöruna. Fólk fær ekki afhentar upplýsingar um aukaverkanir af starfsmanni apóteksins áður en það kaupir, það er ekki upplýst um það sérstaklega, maður þarf að spyrja. Og einhver sagði hér: Við erum nú svo meðvituð um þetta, við vitum þetta, við förum á netið og skoðum, en við miðum aldrei við þá sem standa verst í þjóðfélaginu þegar kemur að upplýsingagjöf. Við eigum að miða við að allir skilji upplýsingarnar. Við sem hér erum inni og höfum einhvern veginn druslast inn á þetta þing erum væntanlega í færum til þess að fara á netið og spyrja réttu spurninganna. Það eru ekkert allir á þeim stað og í öllu þessu þarf að vernda þá sem eru síst í færum til að skilja flóknar upplýsingar. Mér finnst alvarlegt ef það á að leyfa auglýsingar og í dag séu leyfðar auglýsingar þar sem haldið er lofti jákvæðum eiginleikum lyfja án þess að það þurfi að geta um aukaverkanir. Mér finnst það ekki í lagi.

Það eru þrjár umsagnir sem vöktu sérstaklega athygli mína. Sú fyrsta er frá landlækni sem bendir á og segir orðrétt, með leyfi forseta: „Sum lausasölulyf hafa óþægilegar og jafnvel hættulegar aukaverkanir og aukin notkun þeirra bætir ekki heilsu almennings.“ Mér finnst ekki hægt að stinga þessu bara ofan í skúffu eins og það skipti engu máli.

Stjórn Félags íslenskra öldrunarlækna skrifar: „Mikilvægt er að fram komi í auglýsingunni sjálfri bæði ábending lyfs og helstu aukaverkanir.“ Ég er algerlega sammála þessu.

Svo kemur auðvitað ekki á óvart að seljendur, Félag atvinnurekenda og fleiri eru mjög áfram um þessar breytingar. Í umsögn Viðskiptaráðs Íslands segir, með leyfi forseta:

„Nái frumvarpið fram að ganga munu einstaklingar frekar geta áttað sig á því hvaða úrræði standa þeim til boða vegna ýmissa heilsufarslegra kvilla. Þetta getur haft þau áhrif að færri þurfa að leita til læknis vegna erinda sem þeir geta sjálfir leyst úr með einni ferð í apótek. Hjá lyfsala og á fylgiseðli viðkomandi lyfs eru nægar upplýsingar til að sjúklingurinn geti metið hvort lyfið henti honum eða ekki. Með því að takmarka auglýsingar á lyfjum með þeim hætti sem gert hefur verið hér á landi er í raun verið að takmarka aðgengi einstaklinga að upplýsingum um úrræði sem þeir hafa til að bæta heilsu sína.“

Mér finnst nú heldur langt seilst í röksemdafærslunni hérna, svo ég segi alveg eins og er.

Menn deila um áhrifamátt auglýsinga en ef hann er svona gríðarlegur eins og hér er haldið fram, að það sé beinlínis hægt að lækka heilbrigðiskostnað ef neytendur geti sjálfir metið áhrif lyfja út frá auglýsingunum, þá hangir það ekki saman við orðræðuna sem fer t.d. í gang þegar talað er um auglýsingar sem beinast að börnum þegar verið er að auglýsa óhollustu. Þá segja menn: Auglýsingar hafa takmörkuð áhrif, það þarf ekki að hafa áhyggjur af því. Þannig að þessi málflutningur er ýmist í ökkla eða eyra. Annaðhvort hafa auglýsingarnar svo mikil áhrif að það er beinlínis hægt að lækka heilbrigðiskostnað eða þegar seilst er langt og auglýst óhollusta gagnvart börnum þá eru rökin þau, og ég hef lesið þannig umsagnir, að áhrifamáttur auglýsinga sé ekki eins mikill og margir telja. En mér finnst það vera algert grundvallaratriði að það sé skylt að upplýsa um vöruna og aukaverkanir í auglýsingum og utan á pakkningum og í rauninni ætti manni að vera beinlínis sagt frá aukaverkunum ef maður fer í apótek.

Ég ætla að rifja upp eina baráttu sem ég man eftir sem snerist um að heimilt yrði að selja nikótínlyf í verslunum á sama hátt og sígarettur, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Rökin gegn því af hálfu seljenda, þ.e. apóteka, voru þau að það væri mikilvægt að fá þessa fagþekkingu í apótekunum sem starfsmaður í Bónus gæti ekki veitt. En ég hef ekki orðið vör við það þegar ég kaupi eitthvað í apótekum að ég fái sérstakar upplýsingar, ég þarf þá að hafa fyrir því og að biðja um þær. Ekki það að þjónustan er alltaf góð og geri ég ekki lítið úr því, en það er verið að gera mikið úr hlutunum ef því er haldið fram að starfsfólk veiti allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru, það er auðvitað ekki þannig. Og það er sífellt að koma betur og betur í ljós að ýmis lyf eins og verkjalyf og bólgueyðandi lyf geta haft alvarlegar aukaverkanir. Ég vil ítreka það sem sjálfur landlæknir sagði í viðtali sem ég tók eftir og ég var ánægð með að hann sjálfur sagði að hann mundi aldrei taka lyf ef það væri ekki algerlega nauðsynlegt. Lyf eru ekki eins og hver önnur vara og það er þess vegna sem við eigum þessa umræðu hér. En ég ætla að vona, ég veit ekki hvort það þyrfti þá annað frumvarp til eða breytingar á öðrum reglum en mér finnst mjög mikilvægur punktur að ef við ætlum að auka frelsið, sem ég er alveg sátt við, þá tryggjum við að upplýsingarnar til neytenda séu til staðar.