144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

lyfjalög.

408. mál
[17:19]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið. Eins og mér hefur fundist umræðan þróast hérna þá finnst mér hér takast á lýðheilsurök gegn verslunarfrelsi. Eins og hv. þingmaður sagði, þetta er mál sem lætur kannski lítið yfir sér en þegar maður fór að lesa umsagnirnar kemur annað í ljós. Það sýnir hvað umsagnir eru rosalega mikilvægar og mikilvægt að hlusta á hagsmunaaðila í þessu máli sem og öllum öðrum. Oft mundi ég vilja fá fleiri umsagnir um mál vegna þess að þær skipta gríðarlega miklu máli. En varðandi upplýsingarnar þá ruglaði það mig svolítið og tók tíma að átta mig á að það er annars vegar verið að tala um lyfjaauglýsingar sem beinast að heilbrigðisstéttum, í einhvers konar fagtímaritum og slíku, og síðan sjónvarpsauglýsingar, að leyfa auglýsingar á lausasölulyfjum. Það var mikið rætt í upphafi um hvort gerð væri sú krafa að allar upplýsingar um pakkningastærð og verð ættu að vera í sjónvarpsauglýsingunum en eins og má lesa í greinargerðinni er ekki gerð sú krafa, ekki í sjónvarpsauglýsingunum. Ég held að við höfum komist að þeirri niðurstöðu. Það sem ég legg áherslu á er að aukaverkanir, þrjár algengustu aukaverkanirnar, verði tilgreindar í auglýsingum með lyfjum.

Varðandi það hvort þetta geti aukið samkeppnina þá finnst mér að við ættum frekar að horfa á það hvort við séum of ströng þegar við leyfum ný lyf, lyf sem eru leyfð annars staðar á Norðurlöndunum. Auðvitað er betra að hafa fimm eða tíu tegundir á markaði en tvær. Það kom bara í ljós í þessu augndropamáli að það er í raun bara einn aðili með markaðinn og hann getur þá hagað verðlagningunni að vild.