144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

lyfjalög.

408. mál
[17:21]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég tek undir það að við eigum að láta lýðheilsurökin vega þyngra en verslunarrökin og mér heyrist að hér sé nokkur samhljómur í því að mestu, en þrátt fyrir það er þetta mál til umfjöllunar og ekki gerð breyting í þá veru. Það má nú skilja það að fólk tali kannski örlítið gegn eigin sannfæringu, sumir hverjir a.m.k., og verður áhugavert að sjá þegar kemur til atkvæða í þessu máli.

Hér hefur aðeins verið rætt um jurtalyf, náttúrulyf og fæðubótarefni og annað slíkt þar sem ekki virðist vera gerð nákvæmlega sama krafa. Þetta er grátt svæði og þá er spurning hvort þingmaðurinn telji að þau efni ættu að flokkast undir það sama eða lúta sömu lögmálum þegar kemur að auglýsingum, því að mér sýnist þau ekki gera það. Hv. þingmaður sem talaði áðan tiltók einmitt einn hóp fólks, íþróttafólk, þar sem mikið væri hvatt til aukinnar neyslu á alls konar fæðubótarefnum og náttúrulyfjum og slíku, hvort það væri bara orðið einn þáttur af því til að geta stundað sína íþrótt að maður verði að taka íbúfen eða einhver bólgueyðandi lyf. Mér finnst það mjög áhugaverð nálgun og þess vegna veltir maður því upp hvort sömu reglur ætti að gilda um þau efni.

Nú er mér sagt að fyrir þinginu liggi annað frumvarp, um lyfjagát held ég að það heiti, sem snýr að eftirliti, m.a. varðandi aukaverkanir og fleira, það er hjá velferðarnefnd og hefði kannski þurft að ræðast með þessu máli þannig að hægt væri að halda betur utan um þetta.

En mig langar til að vita hvort þingmaðurinn telji að við ættum í rauninni láta þessi náttúrulyf, fæðubótarefni og annað slíkt lúta sömu lögmálum og lyf.