144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

lyfjalög.

408. mál
[17:23]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé allt of mikill frumskógur og ég átta mig í rauninni ekki á því hvaða reglur gilda um fæðubótarlyf, ég þekki það ekki, manni sýnist ansi langt seilst þar en ég get í sjálfu sér ekki svarað því.

En við getum líka tekið sem dæmi snyrtivörur. Í snyrtivöruauglýsingum er ýmsu lofað. Það er náttúrlega til eitthvað sem heitir að það megi ekki blekkja neytendur, almenn löggjöf um það, en ég veit að eins og t.d. í Bretlandi er stofnun sem fer með eftirlit með snyrtivörum og það er gengið mjög langt í því að láta reyna á lögin. Ef það er verið að tala um að 30% af hrukkum hverfi þá er sagt: Sýnið þið fram á það, komið með gögnin. Fyrirtæki var dæmt fyrir það að auglýsa maskara sem lengdi og þétti augnhár um 20% eða eitthvað og í auglýsingamyndinni var konan með gerviaugnhár. Fyrirtækið var beinlínis sektað. Þetta snýst líka um eftirlitið. Ég þekki ekki reglurnar um fæðubótarefnin en það skiptir ekki síður máli að eftirlitið sé í lagi og menn hafi einhver úrræði og sektarheimildir. Það þurfum við að skoða líka.

Ég mundi ekkert verða brjáluð þótt þetta mál færi í gegn vegna þess að eins og staðan er núna þá er heimilt að auglýsa lausasölulyf alls staðar nema í sjónvarpi og mér finnst það í sjálfu sér ekkert endilega sanngjarnt. Hins vegar fyndist mér að það þyrfti þá að endurskoða þetta og gera sem fyrst það sem við erum að tala um hér, í ljósi þess að þetta er ekki eins og hver önnur vara, það eru aukaverkanir, jafnvel alvarlegar aukaverkanir af notkun og ofnotkun af þessum lyfjum, að tryggja að þær upplýsingar komi fram.

Við höfum hér í þinginu talað um betri merkingar á matvæli vegna þess að við vitum að menn eru alltaf tilbúnir að auglýsa kosti vörunnar en reyna jafnvel að fela ókostina. Þetta er það sem neytendur búa við.