144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

jarðalög.

74. mál
[17:34]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Páll Jóhann Pálsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á jarðalögum, nr. 81/2004, með síðari breytingum, sem er lausn úr landbúnaðarnotum og sala ríkisjarða.

Nefndin hefur fjallað um málið að nýju og leggur til annars vegar að kaupréttur samkvæmt 5. gr. sem varðar land sem Landgræðsla ríkisins, áður Sandgræðsla, hefur tekið til uppgræðslu eða verið afsalað til stofnunarinnar eigi aðeins við ef viðkomandi jörð sem landið fylgdi hafi verið setin í samræmi við 1. og 2. tölulið í 1. efnismgr. 4. gr. frumvarpsins. Í þeim töluliðum er mælt fyrir um að ábúandi hafi haft ábúð í að minnsta kosti sjö ár og að hann nýti sjálfur land til ræktunar og beitar o.fl. sem nánar greinir. Hins vegar leggur nefndin til að land samkvæmt framangreindu verði ekki selt sé það náttúruverndarsvæði að hluta til eða öllu leyti. Einnig leggur nefndin til að orðalag lokamálsliðar 5. gr. verði lagfært þar sem með frumvarpinu er lagt til að notað verði orðalagið ,,að breyta landnotkun“ í stað þess að vísa til þess að land sé leyst úr landbúnaðarnotum.

Jafnframt leggur nefndin til orðalagsbreytingu á c-lið 6. gr. frumvarpsins í því skyni að hnykkja á því að ágreiningi verði vísað til úttektarmanna samkvæmt 39. gr. ábúðarlaga en ekki að úttekt verði framkvæmd í þaula samkvæmt þeirri grein. Einnig er lagt til að úttektarmenn taki tillit til undanfarandi málsliðar um að höfð verði hliðsjón af því gjaldi sem kom fyrir landið við afsal eða eignarnám og hverju Landgræðsla ríkisins, Sandgræðslan, hefur kostað til við uppgræðslu landsins.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

1. Við 5. gr.

a. Á undan efnismálsgrein komi fyrirsögn, svohljóðandi: Sala á uppgræddu landi.

b. Í stað orðanna ,,og verði ekki leyst úr landbúnaðarnotum næstu tíu ár“ komi: og notkun landsins verði ekki breytt næstu tíu ár.

c. Við bætist tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:

Kaupréttur er einnig bundinn því skilyrði að greind jörð, sem landið fylgdi áður, hafi verið setin í samræmi við 1. og 2. tölul. 1. mgr. 36. gr. og að ábúandi eða eigandi, ef annar er en ábúandi, leggi fram yfirlýsingu skv. 3. tölul. sömu málsgreinar.

Land skv. 1. mgr. má ekki selja sé það að hluta til eða að öllu leyti náttúruverndarsvæði skv. 8. tölul. 3. gr. laga um náttúruvernd.

2. Síðari efnismálsliður c-liðar 6. gr. orðist svo: Rísi ágreiningur um söluverð skv. 1. málsl. skal vísa honum til úttektarmanna skv. 39. gr. ábúðarlaga, nr. 80/2004, til endanlegs úrskurðar og skulu þeir við matið leggja viðmið 1. málsl. til grundvallar.

Jón Gunnarsson, Ásmundur Friðriksson og Kristján L. Möller voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Lilja Rafney Magnúsdóttir ritar undir álit þetta með fyrirvara. Björt Ólafsdóttir ritar undir álit þetta með fyrirvara um verðmat samkvæmt 5. gr. frumvarpsins. Telur hún að fremur ætti að miða við markaðsverð og veita afslátt af því eins og við ætti hverju sinni.

Undir þetta rita Páll Jóhann Pálsson, Haraldur Benediktsson, Þórunn Egilsdóttir, Þorsteinn Sæmundsson og Lilja Rafney Magnúsdóttir og Björt Ólafsdóttir með fyrirvara.

Auk þess mæli ég fyrir breytingartillögu um orðalagsbreytingar frá Jóni Gunnarssyni:

1. Í stað orðanna „samanlögð stærð landsvæðis“ í 3. málsl. 2. efnismgr. 2. gr. komi: landsvæðið í heild.

2. Við 5. gr.

a. Í stað orðanna „Sandgræðsla ríkisins“ komi: Sandgræðsla Íslands.

b. Í stað orðanna ,,sem landið áður fylgdi rétt til að kaupa það þegar landið er nægilega vel gróið að mati landgræðslustjóra, sbr. 12. gr. laga um landgræðslu“ komi: sem viðkomandi land tilheyrði áður rétt til að kaupa það án almennrar auglýsingar enda sé landið nægilega vel gróið að mati landgræðslustjóra, sbr. 12. gr. laga um landgræðslu.