144. löggjafarþing — 114. fundur,  28. maí 2015.

meðferð elds og varnir gegn gróðureldum.

512. mál
[18:01]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Frú forseti. Mig langar til að gera grein fyrir því í stuttri ræðu að ég hef lagt fram breytingartillögu við þetta mál sem felur í sér að það að kveikja í sinu verði óheimilt með öllu frá árinu 2020, þ.e. eftir fimm ár. Ástæðan er þær röksemdir sem fram komu fyrir nefndinni og í umfjöllun um þetta mál þess efnis að til ræktunar væri mjög takmörkuð raunveruleg gagnsemi af því að kveikja í sinu. Samkvæmt Náttúrufræðistofnun hefur það jákvæð áhrif þegar kemur að lit á gróðri. Hann verður grænni fyrr, en næringargildið er ekki meira og ekki heldur magn hans á neinn annan hátt.

Það er gömul hefð að kveikja í sinu. Hún er missterk eftir því hvar á landinu er litið niður, en í mínum huga er þetta mál þar sem hagsmunir fjöldans vega þyngra en hagsmunir fárra. Það eru mjög fáir sem stunda það enn að kveikja í sinu. Það getur haft mikla hættu í för með sér þegar kemur að gróðureldum og skemmdum á gróðri, landi og mannvirkjum. Það hefur verulega neikvæð áhrif á loftgæði, bæði þar sem kveikt er í og það getur breitt fljótt úr sér á býsna stóru svæði. Það er auðvitað í gildi bann við því að kveikja í sinu en menn hafa hins vegar gert það á grundvelli undanþágna og frumvarpið gerir ráð fyrir því.

Einu röksemdirnar sem ég hef heyrt fyrir sinubrunum er endurnýjun lands í æðarvarpi þar sem sinan er orðin þétt, þykk og mikil og erfitt er fyrir fuglinn að aðhafast. Á þeim fimm árum sem eru þangað til þessi grein sem ég hef lagt fram í breytingartillögu tæki gildi, þ.e. hið fortakslausa bann við sinubrunum, væri hægt að fara yfir þá hagsmuni og hvort hægt væri að mæta þessu öðruvísi. Ég vil gera tilraun til að gera þessa breytingu hér þótt ekki sé líklegt að hún njóti stuðnings, ekki síst til að vekja athygli á því að það er farið fram hjá því banni sem er í lögunum og að þetta mál varðar hagsmuni mjög fárra, þ.e. þetta er réttur mjög fárra sem hefur áhrif á mjög marga.

Í þessari stuttu ræðu vildi ég bara gera grein fyrir þeirri breytingartillögu sem ég hef lagt fram um þetta mál sem ég held að sé að öðru leyti jákvætt og ég mun styðja hvernig sem um þessa breytingartillögu fer.