144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

starfsáætlun.

[11:04]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Það er mikilvægt fyrir okkur í þinginu að halda fókus á því sem við erum að gera hér og okkar verk- og starfsáætlunum og að þær standist sem verða má. Við erum í þeim erfiðu aðstæðum núna að við búum við ríkisstjórn sem virðist fyrirmunað að skipuleggja sín verkefni og kemur afar seint inn með mál. Það er raunar með ólíkindum að samgönguáætlun sé á dagskrá þingsins í dag, á deginum sem þinginu á að vera lokið. Það er í raun alveg með ólíkindum hvernig þetta er skipulagt, eða ekki skipulagt, en það á í sjálfu sér að mörgu leyti rætur að rekja til þess að það er engin verkstjórn í ríkisstjórninni. Það virðist hver ráðherra vera að baksa við sín mál. Ég vona að eftir þennan þingvetur verði mönnum það ljóst að það þarf að hafa einhverja yfirsýn og verkstjórn yfir einu verkefni sem er þess eðlis að stýra samfélagi, ríkisstjórnin þarf verkáætlun (Forseti hringir.) þannig að þingið geti staðið við sína áætlun og það er afar mikilvægt að við höldum þessu öllu til haga.