144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

starfsáætlun.

[11:07]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Sleifarlag ríkisstjórnarinnar er með þeim hætti að núna þegar þingið ætti að vera að fara heim er verið að mæla fyrir þingsályktunartillögu um samgönguáætlun. Það er enn verið að bíða eftir því að hér sé dreift málum sem skylt er að leggja fram fyrir þinglok og dagsetningin 1. apríl um síðasta frest ríkisstjórnar til framlagningar á þingmálum er auðvitað bara orðin að einhvers konar gríni þegar verklag þessarar ríkisstjórnar á í hlut.

Virðulegur forseti lýsti því mjög eindregið yfir af forsetastóli við ráðherra ríkisstjórnarinnar við setningu þingsins í haust að ef þeir kæmu ekki fram með mál í tæka tíð þá yrði örðugt að afgreiða þau. Nú þegar starfsáætlun þingsins er liðin þá hljótum við að kalla eftir því að þeim orðum verði fylgt eftir, störfum hér verði lokið, þótt auðvitað séu allir reiðubúnir til að koma aftur saman ef þarf að taka á stöðunni með þrotabúin og lausn gjaldeyrishaftanna, það eru þjóðarhagsmunir af því tagi að það getur kallað (Forseti hringir.) á að þingið sé kallað saman. En hefðbundnum þingstörfum á að ljúka í dag, virðulegur forseti.