144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

skattbreytingar og ávinningur launþega.

[11:17]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Við höfum vissulega ákveðið fyrirkomulag um hvernig bætur hækka í kjölfar verðlagsþróunar og kjaraþróunar, en það er ekkert sjálfgefið í þeim efnum og við svo miklar hækkanir lægstu launa sem um er að ræða eins og í samningum nú þarf sérstaka ákvörðun ríkisstjórnarinnar til þess að láta það endurspeglast í kjörum lífeyrisþega. Því ítreka ég spurningu mína: Munu aldraðir fá 300 þús. kr. eða ekki? Munu örorkulífeyrisþegar fá 300 þús. kr. í lok samningstímans eða ekki? Það er ákvörðun sem hæstv. fjármálaráðherra hefur í hendi sér og verður að skila hér til okkar.

Varðandi hinn þátt þessa máls þá hefur ríkisstjórnin auðvitað tæki til viðbótar til þess að létta undir með lægri tekjuhópunum. Það er hægt að beita aðferð sem hefur verið í umræðunni á undanförnum mánuðum, en virðist horfin nú, sem er sveigjanlegur persónuafsláttur, persónuafslátturinn sé breytilegur og lækki með hækkandi tekjum. Hvers vegna er ekki farin sú leið? (Forseti hringir.) Sú aðgerð mundi nýtast mjög vel lágtekjufólki og mun nýtast lífeyrisþegum með algjörlega fordæmalausum hætti. (Forseti hringir.) Af hverju er ekki farin sú leið til að bæta kjör þeirra sem lakast standa?