144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjárframlög til túlkasjóðs.

[11:44]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina.

Ástæða þess að ég rakti í mínu fyrra svari þá sögu sem lýtur að þeirri stöðu sem sjóðurinn er í byggir á því að það tók auðvitað nokkurn tíma að auka fjárframlögin. Það gerðist í tveimur skrefum í síðustu fjárlögum og þarsíðustu, þar sem verið var að mæta þeim vanda sem varð til þegar laun túlkanna voru hækkuð umtalsvert án þess að fjármunir væru látnir fylgja. Það þýddi að geta sjóðsins til að standa við þessi verkefni rýrnaði mjög og við því varð að bregðast. Nú er sú staða komin að það er búið að bæta það miklum fjármunum við að þegar taldar er þær klukkustundir sem eru til ráðstöfunar núna eru þær jafn margar og þær voru á þeim tíma sem hv. fyrirspyrjandi var hæstv. ráðherra og sat í ríkisstjórn. Það þarf að halda því til haga, það er ekki hægt að nálgast málið með því að segja að þessi ríkisstjórn hafi einhvern veginn brugðist í verkefni sem hún stendur frammi fyrir, miklu heldur að tekist var á við þetta verkefni með þeim hætti sem ég hef lýst og fjárframlagið aukið verulega til sjóðsins.

Það er síðan alveg hárrétt að þegar horft er til þeirra verkefna sem þar eru þá má ljóst vera að við munum halda áfram og þurfum að halda áfram að bæta við í þennan sjóð. Það verður ekki hægt að horfa fram hjá því verkefni. En ég hef líka ítrekað að það er ekki svo að þetta sé eina þjónustan sem hið opinbera veitir til þessa hóps sem þarf á táknmálsþjónustu að halda. Það er víða eins og hv. þingmaður nefndi réttilega í fyrirspurn sinni, m.a. í menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu. Þessi sjóður sem er öðruvísi, sem snýr að daglega lífinu, er með öðrum orðum í sömu færum og áður eftir að búið var að bæta við fjármuni vegna hækkana sem urðu á launum túlkanna, hann er í sömu færum og var áður hvað varðar klukkustundafjölda sem er tiltækur til að veita þjónustuna.

Það er alveg ljóst og ég ítreka það að því verkefni er ekkert lokið, við munum halda áfram að þurfa að efla þessa þjónustu, það liggur fyrir, virðulegi forseti. En fjárlögin liggja fyrir. Þeir fjármunir sem voru veittir til þessa sjóðs liggja fyrir. Það sem síðan var gert (Forseti hringir.) var að reynt var að koma því þannig fyrir að hann tæmdist ekki algerlega heldur væri (Forseti hringir.) stillt upp þannig að honum væri jafnað yfir árið.