144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[12:25]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrir það fyrsta vil ég þakka hæstv. innanríkisráðherra Ólöfu Nordal fyrir að koma loks með þessa þingsályktunartillögu um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015–2018. Hún kemur seint fram, það eru ekki margir dagar eftir. Ég get sagt það fyrir mitt leyti að ég hugleiddi hvort fara ætti fram á lengri umræðutíma við fyrri umr. en ég hætti við það vegna þess að ég tel mjög mikilvægt að málið komist til nefndar; við eigum eftir síðari umr., en það þarf að ræða þessa áætlun mjög vel.

Ég var ekki beint búinn að undirbúa mig fyrir það að hafa fyrstu ræðu fyrir hönd okkar jafnaðarmanna, það átti hv. þm. Katrín Júlíusdóttir að gera. Hún þurfti að fara í jarðarför suður í Hafnarfjörð og þess vegna stekk ég hér inn. Katrín Júlíusdóttir er fulltrúi okkar í umhverfis- og samgöngunefnd sem þessi áætlun heyrir undir. Ég mun á þeim tíu mínútum sem mér er ráðstafað fara yfir þetta almennt og nota þá seinni tíma minn, eins og þingmenn eiga að gera, til að ræða mál í mínu kjördæmi, sem ég þekki best.

Ég verð að segja eins og er að þessi þingsályktunartillaga er mér mikil vonbrigði vegna þess hve lítið er í henni, hvað hún er rýr. Nú hafa 1.800 milljónir bæst við, sem menn eru mjög stoltir af, og ber að þakka fyrir það, en ég bendi á að þetta eru 1.800 milljónir í viðbót við nánast ekki neitt á þessu ári. Staðan var þannig í upphafi þessa árs að til voru um 570 milljónir, það leit út fyrir það, til nýframkvæmda í vegamálum, ef við tökum bara þann þátt. Í fjáraukalögum voru 300 milljónir teknar af. Þá stóðu eftir 270 milljónir og sú upphæð dugði varla til að mæta óvæntum atvikum, verðbótum og öðru, á þau verk sem eru í gangi. Við skulum líka hafa í huga að þau verk sem eru í gangi eru verkefni sem ákvörðun var tekin um í tíð síðustu ríkisstjórnar. Mér finnst það því mjög furðulegt, svo að ég noti nú ekki annað orð, þegar tveir fulltrúar Framsóknarflokksins, hv. þingmenn Vigdís Hauksdóttir og Höskuldur Þórhallsson, tala um að þetta hafi allt verið vanrækt frá hruni.

Halló, halló! Gera menn sér grein fyrir því að á síðasta kjörtímabili var slegið Íslandsmet í framkvæmdum í vegamálum á Íslandi? Nú er þessi stjórnarmeirihluti að slá nýtt Íslandsmet í að gera ekki neitt, nánast ekki neitt. Það ber að þakka fyrir það að hæstv. innanríkisráðherra hafi náð því í gegn við fjármálaráðherra að fá þessar 1.800 milljónir í viðbót. Ég hefði jafnvel sagt, ef þær hefðu ekki komið til, að engin þörf væri á að leggja fram nýja þingsályktunartillögu með samgönguáætlun vegna þess að það hefði bara getað snúist um það sem er í gangi, að greiða þær verðbætur, vegna þess að ekkert væri að koma nýtt inn.

Það voru áform um ýmsar framkvæmdir sem voru í síðustu áætlun sem áttu að fara í gang, eins og framkvæmdir við Arnarnesveg, Strandaveg, Jökulsá á Fjöllum, Dettifossveg, Berufjarðarbotn og fleira sem engar líkur væru á að færu í gang. Nú sjáum við hvernig þessum 1.300 milljónum til nýframkvæmda er deilt út og það er í raun smotterí í hvert verk. Það er verið að reyna að setja eitthvað í gang. Ég get tekið Dettifossveg sem dæmi. Þar voru, af síðasta innanríkisráðherra, teknir peningar sem áttu að fara í framkvæmd og settir í viðhald malarvega með því loforði að aukið fé kæmi í viðhald malarvega sem yrði skilað í framkvæmdir við Dettifossveg. Það er ekki gert nema að litlum hluta. Það er sáralítil upphæð sem sett er í Dettifossveg.

Virðulegi forseti. Hvenær var Dettifossvegur tekinn frá hringvegi og niður að Dettifossi? Var það ekki í tíð síðustu ríkisstjórnar á síðasta kjörtímabili? Hvað hefur verið gert síðan? Svikin loforð fyrrverandi innanríkisráðherra og 2–2,5 kílómetrar settir í útboð, og smotteríi á að bæta við hér.

Virðulegi forseti. Ég er kominn út fyrir það sem ég sagði áðan, að ég ætlaði ekki að ræða kjördæmamál heldur almennt um áætlunina.

Það sem ég vil segja og ítreka það sem ég sagði hér áðan í stuttu andsvari við hæstv. ráðherra: Það er verkefni okkar hér á Alþingi, allra flokka, að ákveða — þess vegna hvet ég innanríkisráðherra til að setja í gang þverpólitíska vinnu þar sem við reynum að vinna okkur að niðurstöðu sem allir eru sáttir við — hvernig við ætlum að auka fé til vegagerðar og viðhalds og þjónustu. Það er aukin þörf á viðhaldi, það hefur drabbast niður meðan við vorum í nýframkvæmdum. Vetrarþjónusta hefur aukist mjög og verður dýrari, það eru gerðar meiri kröfur. Breytt veðurfar gerir að verkum að það þarf að auka í. Upplýsingaþjónustan, sem er alveg frábær hjá Vegagerðinni, á heimasíðu Vegagerðarinnar, kostar sitt. En við þurfum að finna lausn á því hvernig við ætlum að láta markaða tekjustofna Vegagerðarinnar standa undir þessum kostnaði. Eins og ég sagði hér áðan þá munar 7 milljörðum kr., hvorki meira né minna, á ári. Ef markaðir tekjustofnar hefðu tekið hækkunum miðað við verðlag þá værum við með 7 milljörðum meira í vegagerð sem slíka.

Nú er það svo að þetta hefur átt sér stað mörg undanfarin kjörtímabil. Þetta er ekkert að eiga sér stað núna, gerðist líka á síðasta kjörtímabili. Þetta er það sem við þurfum að svara og að auki því, sem var í seinna andsvari mínu áðan, hvernig við ætlum að láta umhverfisvæna bíla, sem við þurfum að fjölga mjög verulega og erum að stuðla að með eftirgjöf á ýmsum gjöldum, leggja eitthvað inn í þennan sjóð. Það er líka spurning sem allir stjórnmálaflokkar á Íslandi standa frammi fyrir að svara. Það getur ekki gengið að framlag til Vegagerðarinnar detti meira og meira niður og svo er skammast út í Vegagerðina fyrir að sjá ekki um viðhald eða fara út í framkvæmdir, hvort sem það er í einhverjum kjördæmum úti á landi eða hér á höfuðborgarsvæðinu. Það bara gengur ekki upp.

Eins og ég segði áðan var Íslandsmet slegið á síðasta kjörtímabili, það hafa aldrei verið aðrar eins framkvæmdir og þá voru.

Bara aðeins til að fara yfir þessa áætlun eins og hún er, og eins ég segi á tíu mínútum kemst maður ekki yfir nema stærsta þáttinn í þessu sem er vegamál og vegagerð, er þar 5,8 milljörðum varið til viðhalds. Á öllu því vegakerfi sem Vegagerðin sér um er í raun undravert hvað hægt er að gera fyrir þá litlu fjármuni. Síðan er alltaf sama spurningin með tengivegi og allt það sem við erum að setja allt of lítið fjármagn í.

Ég hef ekki beinar spurningar til ráðherra sem hún mundi kannski svara í lokaræðu sinni, en ég spyr til dæmis út í styrki til innanlandsflugs. Eru áform uppi um að bjóða út aftur hinar ríkisstyrktu leiðir til ýmissa smástaða úti á landi og hvenær verður það þá gert?

Aðeins yfir í flugáætlunina, hún kemur auðvitað líka hér inn. Það er nánast þannig að það tekur því ekki að ræða um hafnarframkvæmdir og sjóvarnir, það er það lítið, en 2 milljarðar eru settir í flugvellina, þar af fara um 1,5 milljarðar í þjónustusamninginn við Isavia og viðhald og reglubundin endurnýjun búnaðar er aðeins 370 milljónir og stofnkostnaður samtals 547 milljónir.

Spurning mín til hæstv. ráðherra er þessi: Voru það ekki 500 milljónir sem við tókum í arð af Isavia? (Gripið fram í: Jú.) Voru það ekki 500 milljónir sem voru teknar inn í ríkissjóð og í fjárlögum var það sett inn til hvers ætti að nota það, skilaboð Alþingis við samþykkt fjárlaga. Er ekki alveg tryggt að þessar 500 milljónir í arðgreiðslur frá ríkissjóði fóru í það að auka framkvæmdir til flugmála? Vonandi hefur það ekki verið þannig í fjármálaráðuneytinu að þeir hafi skorið ríkisframlagið niður af því að Alþingi tók 500 milljónir í arð af Isavia. (Gripið fram í.) Því svarar hæstv. ráðherra á eftir. Ég vona svo sannarlega að svo sé ekki, verð að hafa þau gögn sem voru upphaflega til þess að fara í gegnum það.

Þetta er fyrsta innlegg hvað varðar þessa samgönguáætlun sem ber að leggja fram miðað við lög nr. 33/2008. Auðvitað ber að harma það að langtímaáætlunin skuli ekki fylgja með, en hún kemur þá væntanlega á haustinu, en það kemur sennilega mikið til út af því hve erfitt er að raða þessu niður.

Virðulegi forseti. Af því að menn hafa hér, að minnsta kosti einn stjórnarliði, verið að tala um að það eigi að auka þetta töluvert á næstu árum — menn eru alltaf að tala um hvað þeir ætli að gera í lok kjörtímabilsins — þá er það þannig á forsíðunni að frá árinu 2015–2016 verði eingöngu aukið við um 2 milljarða. Þetta er engin (Forseti hringir.) viðbót, þetta eru engar viðbætur, það er ekkert stórátak fram undan. Það er lítið gert núna, (Forseti hringir.) en það er ekkert mjög mikið í framtíðinni.