144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[12:35]
Horfa

Haraldur Einarsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka þingmanninum fyrir greinargóða ræðu og greinilegt að hann hefur mikið vit á þessum málum. Í ræðunni kom hann inn á rafmagnsbíla, bíla sem ganga fyrir rafmagni, það er einnig mikið áhugamál hjá mér, og hann kom að því vandamáli sem við stöndum frammi fyrir ef við munum reyna að keyra á það að rafmagnsvæða bílaflotann, þ.e. hvernig við ætlum að fjármagna vegakerfi okkar með umhverfisvænum ökutækjum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann nánar út í þetta, hvernig hann sjái þetta fyrir sér, hvort hann hafi hugsað einhverjar lausnir í þessum málefnum, hvort hann sjái fyrir sér aukin veggjöld á ákveðnum köflum eða eitthvað annað.