144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[12:37]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sem svar við þeirri spurningu sem hv. þingmaður leggur fyrir mig um rafmagnsbíla sem ég gerði lítils háttar að umtalsefni í fyrri ræðu minni þá verð ég að ítreka það sem ég sagði, það er verkefni allra stjórnmálaflokka á Íslandi að setjast niður og finna lausn á þessu.

En hv. þingmaður spyr mig hvaða leiðir ég sjái. Já, það eru tvær leiðir. Ég hef alltaf verið hrifnastur af því og að því var byrjað að vinna í minni samgönguráðherratíð að taka upp svokallaða kubba eða við skulum segja GPS-tæki í öll ökutæki á Íslandi. Þá er bara greitt fyrir stað og stund og ekna kílómetra og væri þess vegna hægt að setja það þannig upp að ef menn leggja bílum í bílastæði eða keyra í gegnum jarðgöng sem á að borga fyrir kemur það allt í gegnum tækið. Það mundi líka ryðja út öllum gjaldstöðvum sem við mundum setja upp á einhverjum vegum eða jarðgöngum ef við förum út í einkaframkvæmdir sem verða svo borgaðar af þeim sem fara um, líkt og gera á í Vaðlaheiðargöngum sem er nýjasta dæmið.

Ég sé því þá leið þróast og það er auðvitað sorglegt að í fjögur ár hefur ekkert verið unnið að þeirri framkvæmd. Það sem verra var er að vinnan var stöðvuð. Hollendingar voru lengst komnir með að taka þessa tækni upp en frestuðu því um nokkur ár. Mér er ekki kunnugt um hvernig sú staða er akkúrat núna, en við áttum unga íslenska hugvitsmenn sem voru komnir mjög langt í að búa til eiginlega þau fremstu og bestu tæki sem hefði verið völ á í heiminum til að gera þetta. Drottinn minn dýri, ef við tækjum þetta upp í eylandi, eyþjóð eins og okkur, væri það í raun dæmi um hvernig væri best að ryðja brautina og þróa kerfið. Þannig að svarið er þetta. En vegna þess að það er eitthvað lengra í að þetta verði að veruleika er hitt svarið að menn verða að komast að niðurstöðu og spyrja bara stutt og laggott: Hvernig eiga rafmagnsbílar (Forseti hringir.) að greiða fyrir notkun á vegunum til samræmis við þá sem nota annað eldsneyti?