144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[12:41]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins til að halda áfram með það áhugaverða efni sem hinn ungi þingmaður spyr mig út í, þ.e. framtíðina í því hvernig við öflum fjár til vegagerðar, þá ítreka ég það sem ég sagði að GPS-kubbarnir eða hvað við viljum kalla þetta eru tvímælalaust framtíðin. Einhver kann að spyrja þá um persónuverndarmálin en til dæmis í hinu stóra kaupfélagi úti í Evrópu, Evrópusambandinu, sem við hv. þingmaður erum að vísu ekki alveg sammála um hversu gott er, eru menn komnir mjög langt með að uppfylla þau skilyrði sem persónuvernd setur hvað þetta varðar þannig að upplýsingar verða ekki rekjanlegar og ekki misnotaðar. Það er komið mjög langt. Þannig að mínu mati er það vandamál eiginlega að verða úr sögunni.

Með þessari framtíðartækni gætum við til dæmis tekið upp ýmsar lausnir sem mundu spara stórfé í framkvæmdum við vegamál. Tökum bara dæmi af höfuðborgarsvæðinu. Það eru nokkrar leiðir á mesta annatímanum á morgnana og á kvöldin sem eru algjörlega þéttsetnar og umferðin gengur hægt. Með þessari tækni er hægt að segja að ýmsar aðrar leiðir sé hægt að fara, þær eru kannski lengri í kílómetrum en með miklu lægri gjaldskrá á háannatíma. Það er í raun bara sett inn í tölvuna og inn í forritið þannig að þeir sem vilja fara einhverja aðra leið en allir vilja helst fara fara hana og þá er hægt að rukka miklu lægra gjald til að koma til móts við það að leiðin er lengri í kílómetrum. Það er ein leið.

Hv. þingmaður spyr um vörubílana. Já, það væri hægt að gera í þessu kerfi. Og af því að hv. þingmaður á sæti í Þingvallanefnd þá væri meira að segja hægt að setja upp gjaldstöðvatæki þar fyrir að leggja bílum til að fjármagna framkvæmdir við þjóðgarðinn, það gæti meira að segja komið inn í þetta líka, og prenta það svo bara út að þessir bílar stóðu þarna í þessum mánuði og Þingvallanefnd ætti þær tekjur vegna lagningar bíla á þessum stað. Gjörið þið svo vel, það fer til rekstrar.