144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[12:52]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég flutti ræðu mína í gær um það að samgönguáætlun kemur hér á alveg stórfurðulegum tíma miðað við starfsáætlun þingsins, á síðasta degi starfsáætlunar kemur fjögurra ára samgönguáætlun til umræðu í þingsal og á eftir að fara inn til umhverfis- og samgöngunefndar og í efnislega meðferð. Það er auðvitað ótækt. Ég þarf í sjálfu sér ekki að endurtaka ræðu mína um það frá því í gær, en ég verð samt sem áður að segja að sú framkvæmd vekur mig til umhugsunar um það verkferli sem við höfum í þessum málaflokki, þ.e. að taka til umfjöllunar hér í fínni blæbrigðum helstu samgönguframkvæmdir í landinu þar sem þingmenn ólíkra kjördæma og mismunandi kjördæma koma og — ég ætla ekki að segja rífast, en togast kannski á um fjármagn og mikilvægi framkvæmda. Staðreyndin er sú að við erum öll á sama báti í þessum efnum og samgönguframkvæmdir eru þess eðlis að þær gagnast öllum landsmönnum. Það er jákvætt fyrir allt landið að samgöngur séu góðar. Það hefur ekki bara svæðisbundin jákvæð áhrif, það hefur góð áhrif á allt samfélagið. Það er virðisaukandi þegar kemur að sköpun atvinnu, það eykur gæði búsetuskilyrða, þannig að við þurfum að nálgast samgöngumál heildstætt.

Ég hef oft rifjað upp bæði hér og annars staðar ágætisdæmi um þá undarlegu verktilhögun sem getur orðið þegar við erum með kjördæmaþingmenn sem togast á um fjármagn. Aðeins um það bil tvo kílómetra frá Landeyjahöfn sem opnaði 2010 er giska vel útbúinn flugvöllur með flugstöð sem var opnuð árið 2006 og er ekki mikið notuð í dag þótt auðvitað sé hún að einhverju leyti notuð og sá ágæti flugvöllur sem kenndur er við Bakka. Það sem ég er að segja er að það skortir heildarsýn og að menn horfi til lengri tíma. Ég hef oft velt því fyrir mér hvort ekki væri eðlilegra að við hefðum annað fyrirkomulag á þessu og það væri bara einfaldlega í höndum þingmanna að skammta fjármagn til ákveðinna svæða og dregið væri einfaldlega úr þessu hlutverki þingsins að véla um ákveðnar framkvæmdir. Ég held að samspil kjördæmaskiptingar, hagsmuna stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna, og síðan áherslu íbúa geti skapað mjög óheilbrigða forgangsröðun þar sem menn horfa ekki á heildarmyndina heldur mjög þröngt á hagsmuni ákveðinna svæða eða sveitarfélaga. Ég held að það sé full ástæða til þess að horfa til annars fyrirkomulags, ekki síst í ljósi þess að þingið fær ítrekað samgönguáætlun til umfjöllunar án þess að hafa nægan tíma eða forsendur til þess að fara yfir þau efnisatriði sem í henni eru.

Eitt ágætt dæmi sem ég vil nefna frá lokum síðasta kjörtímabils, sem er reyndar komið inn hér í þessum pappír, er ívilnunarsamningur um Bakka við Húsavík þar sem gert er ráð fyrir því og er samþykkt í þinginu að ráðast í ívilnanir og samgönguframkvæmdir og innviðauppbyggingu, þar á meðal jarðgangagerð sem á að kosta 1,8 milljarða. Hvað kemur í ljós á þessum pappír hér? Kostar 3,1 milljarð. Það skeikar rúmum 1.200 milljónum og það er ekki einu sinni byrjað á framkvæmdinni. Nú er ég stjórnmálamaður sem hefur tekið þátt í ákvarðanatöku um t.d. Vaðlaheiðargöng sem er ljóst að munu fara fram úr kostnaðaráætlun. Þau munu kosta meira en stefnt var að, en það er kostnaður sem kom í ljós þegar verkið var hafið. Hér erum við að tala um hækkun upp á rúman milljarð áður en verkefnið er byrjað. Því var reyndar haldið fram hér þegar það mál kom til atkvæðagreiðslu af mér og hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni að gefinn væri of skammur tími til þess að skoða málið, ekki lægju fyrir nægileg gögn til þess að hægt væri að taka upplýsta ákvörðun, þess vegna sátum við hjá í málinu. Hvað er nú komið í ljós? Það voru ekki nægileg gögn til þess að taka ákvörðun um málið, þau stóðust ekki.

Það eru nokkur atriði sem ég vil tæpa á í samgönguáætlun sem eru jákvæð og ég styð. En það er með þau eins og margt annað í lífinu, það er ekki nóg að tala bara um hlutina, það þarf að gera þá. Hér eru mjög margir jákvæðir hlutir sem lúta að skipulagsmálum, uppbyggingu hjólreiðastíga og möguleikum fólks á að ferðast jafnt með bíl, gangandi eða á hjólum, sem ég styð heils hugar. En þegar ég sé þetta verður mér að orði þessi setning sem ég heyri því miður oft frá konunni minni: Hættu að tala um þetta, gerðu þetta bara.

Það eru dálítið margir svoleiðis punktar í þessari áætlun eins og t.d. að það eigi að fara að loftslagsmarkmiðum ríkisstjórnarinnar sem sett voru árið 2010. Hér er talað um að draga eigi úr losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Ég skoðaði þessa aðgerðaáætlun í gær. Hún var kynnt til sögunnar 2010, var til umfjöllunar í þinginu 2011, er með mjög afmörkuð tíu lykilatriði sem á að fylgja og hún afmarkast við tímabilið 2010–2020. Tímabilið er hálfnað.

Nýverið bárust fréttir af því að ríkisstjórnin væri að endurnýja bílaflotann sinn. Er farið að markmiðum aðgerðaáætlunar stjórnvalda í loftslagsmálum þegar kemur að því? Nei. Það er ekkert horft til hennar. Það kæmi mér ekki á óvart ef flestir af ráðherrum í hæstv. ríkisstjórn vissu ekki einu sinni að til væri einhver aðgerðaáætlun sem menn væru að fylgja í þessum efnum. Ég hef að minnsta kosti ekki orðið þess var, hæstv. ráðherra, sem er örugglega vel kunnug þessari aðgerðaáætlun og fylgir henni í hvívetna og hugsar um hana á hverjum degi.

Mig langar að tæpa á atriðum sem eru jákvæð. Það eru hin almennu samgönguverkefni þar sem styðja á við gerð stofnstíga í þéttbýli þannig að ganga og hjólreiðar verði greiður og öruggur samgöngumáti. Ég vil í þessu samhengi tengja það við skipulagsmál og við þá hugsun sem er að verða sífellt útbreiddari að menn geti búið í einhvers konar borgar- eða þorpshverfum, hugmyndinni um einhvers konar borgarþorp þar sem menn hafa alla þjónustu innan seilingar, geta komist til og frá vinnu fótgangandi eða á hjóli eða með almenningssamgöngum, og það sé ekki frumforsenda lífs að menn eigi einkabíl. Einkabíllinn sé auðvitað ekki eitthvað sem beinlínis eigi að fjandskapast út í, en ég held að það sé mikilvægt að val um annars konar lífsstíl sé raunhæfur möguleiki.

Virðulegi forseti. Það eru atriði hér sem ég hefði viljað tala um og koma betur að en ég sé að ég mun ekki ná að klára öll þau atriði á þeim nauma tíma sem mér er skammtaður í þessari umræðu. Ég vil tala um tvö atriði áður en tími minn er úti, það er annars vegar að ég sé hvergi sem markmið um öryggi í samgöngum hina svokölluðu núllsýn. Mér sýnist að það orð, sem er mjög jákvætt og er ættað frá Svíum og hefur skilað mjög góðum árangri, sé ekki í þessu plaggi. Kannski er það misskilningur hjá mér, en það finnst mér vera mjög mikilvægt.

Ég vil líka segja að það sem skiptir mjög miklu máli í framtíðarsýninni er að við horfum á stofnæðar, stofnvegi, umferðarþunga vegi, með það í huga að búa til 2+1 vegi. Ég horfi þá sérstaklega til vegarins til Selfoss. Það er að vísu mjög jákvætt að menn séu að huga að uppbyggingu þar, en mér finnst líka ekki síður mikilvægt að menn horfi á norðurleiðina (Forseti hringir.) frá Reykjavík til Akureyrar með það í huga að stytta hana og breikka og gera þægilegri og öruggari fyrir ferðamenn að ferðast eftir.