144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[13:08]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað réttur hv. þingmanns að finnast það ekki vera vanvirðing, mér finnst það hins vegar. Hér er tillaga upp á 70 blaðsíður, margvíslegar töflur og upplýsingar. Miðað við venjulega starfshætti í umhverfis- og samgöngunefnd þá fundum við tvisvar í viku. Það má búast við því að það fari að styttast í annan endann á þingstörfum. Það er komið á þann stað í starfsáætlun þingsins að nefndarfundir eru ekki fastir, það er ekki hægt að ganga að því vísu að við fundum á sömu tímum og við gerum vanalega. Þannig að ég velti fyrir mér hvernig hv. þm. Höskuldur Þórhallsson sjái fyrir sér að menn eigi að fara yfir þetta plagg. Verður málið sent til umsagnar? Eða verða fengnir gestir á fund nefndarinnar? Hvað fá þeir sem fá það sent til umsagnar langan umsagnarfrest til þess að koma með álit sitt? Það hefur verið venjan, ég er búinn að vera töluvert í samgöngumálum, að menn hitti að minnsta kosti landshlutafélög, ef ekki sveitarfélögin beint, til þess að ræða einstakar framkvæmdir. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að hann muni koma slíkum heimsóknum fyrir á þeim tíma sem eftir er?

Mér finnst þetta ekki mjög líklegt til árangurs. Jú, auðvitað erum við vinnusöm nefnd og ættum að geta gert eitthvað í þessu, en það hefði verið mögulegt að fá samgönguáætlun inn síðastliðið haust vegna þess að fyrir utan viðbótarfjármagnið sem kemur hér inn á síðustu dögunum er þetta að stofni til sama samgönguáætlunin og sett var fram í þinginu síðastliðið vor, var ekki kláruð, og hefði þess vegna getað komið inn í þingið í haust. En enginn veit af hverju það var ekki gert.