144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[13:10]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Mér fannst það áhugavert sem hv. þingmaður nefndi í upphafi ræðu sinnar, að það væri svolítið gamaldags, hann notaði ekki það orð en ég ætla að nota það, að leggja fram samgönguáætlun í því formi sem hún er lögð fram hér með ótal smáatriðum þar sem þingmenn byrja að togast á. Ég man eftir því sjálf þegar ég hlustaði fyrst á umræður um samgönguáætlun, ég veit ekki hvort ég á að segja að ég hafi verið hissa en þetta var ákveðin upplifun. Við fengum smánasaþef af því áðan þegar þingmenn úr sama kjördæmi voru að munnhöggvast um atriði sem eru kannski ekki smáatriði en í stóra samhenginu er þau það samt.

Hv. þingmaður fór mjög hratt yfir og sagði að það væru stærri atriði sem þingmenn ættu að taka fyrir, ekki vera í smáatriðum. Hefur hv. þingmaður hugsað eitthvað nánar hvernig mætti afgreiða samgönguáætlun og þá hluti öðruvísi en við gerum í dag?