144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[13:16]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Núllsýnin er hugmyndafræði sem Svíar tóku upp til þess að takast á við tíð umferðarslys. Þeim tókst það með því að setja umferðaröryggismælikvarðann á allar framkvæmdir, á alla vegarkafla og velta í sífellu fyrir sér hvernig hægt væri að draga úr hættunni af sjálfu samgöngukerfinu með því að skipuleggja það með umferðaröryggi í huga. Ég held að best sé að útskýra núllsýnina þannig að þetta sé eins og kynjuð fjárlagagerð, alltaf þegar menn leggjast í hana horfa þeir á verkefnin með það í huga hvaða áhrif þau hafi á jafnrétti. Í þessu tilfelli mundu menn raða niður framkvæmdum með umferðaröryggi í huga. Auðvitað vitum við að það er gríðarlega mikið áunnið með því að aðskilja akstursstefnur. Það er kannski ekki alltaf algerlega nauðsynlegt að fara í 2+2, en þar sem við höfum gert 2+1 vegi og aðskilið akstursstefnur um tíma og skipt síðan á vissum stöðum hafa menn nýtt sér færi þar sem hægt er að taka fram úr og sleppt því þar sem er ein akrein. Þannig að það að taka til dæmis veginn frá Reykjavík og alla leið norður á Akureyri, sem er mjög fjölfarinn, og horfa á það sem verkefni þar sem við eigum að aðskilja akstursstefnur hefur í för með sér töluvert aukið umferðaröryggi, það mundi fækka slysum, það væri mjög jákvæð aðgerð. Ég er ekkert að segja að búið sé að taka þá hugsun út úr samgönguuppbyggingunni en mér finnst hins vegar mikilvægt að menn hafi þetta í huga. Það var það sem ég átti við.