144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[13:18]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við fjöllum hér um samgönguáætlun fyrir árin 2015–2018. Ég hef tíu mínútur og ætla að víkja að fjórum efnisþáttum, í fyrsta lagi plagginu sem slíku, áætluninni, í annan stað stjórnsýslu- og stofnanakerfi samgöngumála, í þriðja lagi víkja að megináherslum eins og þær birtast í áætluninni og í fjórða lagi fara nokkrum orðum um einstaka tiltekna þætti.

Fyrst varðandi áætlunina, hún er gerð í samræmi við lög frá 2008 sem kveða á um að innanríkisráðherra skuli leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar á fjögurra ára fresti um samgönguáætlun þar sem mörkuð sé stefna og markmið fyrir allar greinar samgöngumála næstu 12 árin og sú áætlun sem unnið er samkvæmt nú er gildir um árin 2011–2024. Síðan skal leggja fram fjögurra ára áætlun sem er svo endurskoðuð á tveggja ára fresti, það er það sem er viðfangsefnið hér í dag.

Varðandi stofnanakerfið og stjórnsýsluna þá hafa miklir hlutir gerst þar á undanförnum árum, því á árinu 2013 átti sér stað mikil uppstokkun. Flugmálastjórn Íslands, Siglingamálastofnun, Umferðarstofa og Vegagerðin voru ekki lagðar niður, en þeim var breytt og fengu ný nöfn og ný verkefni sem færðust eitthvað á milli stofnana. Til varð Samgöngustofa og er nafnið ákvörðun starfsmanna sem tóku þátt í atkvæðagreiðslu um heitið. Hið sama gilti um Vegagerðina nema niðurstaðan var sú að halda þar í þetta gamla góða nafn, Vegagerðina, sem okkur þykir ágætlega vænt um öllum saman. Ég vildi láta kalla stofnunina Samgöngustofnun Íslands í samræmi við breytt hlutverk þar sem hún yrði komin með undir sína regnhlíf alla þætti samgöngumála. Hún er meginstoðin í stjórnsýslu samgöngumála á Íslandi og hefði verðskuldað það heiti. Það getur vel verið að við tökum það mál upp einhvern tímann síðar.

Sá þáttur sem ég vildi víkja að í sambandi við stjórnsýsluna er þessi. Umbyltingin hefur kostað mikla peninga. Hún er gerð til að svara nýjum kröfum tímans. Við ætlum að hugsa samgöngumálin heildstætt, samgöngumál í lofti, á landi og legi. Þetta er fyrst og fremst gert af hagkvæmnisástæðum. Það á eftir að koma í ljós hver árangurinn af þessu verður, en þetta kostar peninga. Þessar stofnanir hafa þurft að sæta niðurskurði, því sem kallað er hagræðingarkröfur, og sá niðurskurður getur orðið hættulegur. Við fundum það þegar Múlakvísl fór í sundur fyrir nokkrum missirum, þá þökkuðu menn fyrir það að eiga vegavinnuflokka á Hvammstanga og í Vík í Mýrdal sem voru sérhæfðir í brúarsmíði. Það hafði staðið til að fækka í þessum hópum. Það var horfið frá því, reynslan kenndi að það gæti verið varasamt. Ég horfi til þess sem gerðist hjá Samgöngustofu þegar fjölda manns var sagt upp störfum þvert á loforð sem ég hafði gefið sem innanríkisráðherra á sínum tíma. Við sögðum að það ætti ekki að segja upp fólki. Það var engu að síður gert í trássi við loforð sem gefin voru. Ég beini því til ríkisstjórnarinnar að huga að stjórnsýslu- og stofnanakerfinu sem við vorum að setja á laggirnar. Það má ekki svelta það.

Í þriðja lagi vil ég víkja að helstu áherslunum. Eins og ég gat um áðan þá á þessi stofnanabreyting, þessi kerfisbreyting í stjórnsýslunni, að endurspegla ný viðhorf. Við ætlum að taka alla þætti samgöngumálanna og setja þá undir eitt þak, eina stóra regnhlíf. Ég held að sú hugsun sé til góðs. Það skiptir máli um ákvarðanir í vegamálum hvað við gerum í flugmálum, varðandi flugsamgöngur o.s.frv. Ég held að við höfum skorið um of niður á undanförnum árum til flugmálanna. Ég tel að við höfum gert það. En það er önnur áhersla sem hefur verið röng, ekki bara núna heldur á undangengnum árum, hún er varðandi viðhald vega. Við höfum hugsað of mikið í stórframkvæmdum. Það hefur verið sagt í mín eyru hér í þinghúsinu að þeir sem hafi skilning á hinum áherslunum sem ég er að tala fyrir, viðhaldshugsuninni, séu landsmenn sjálfir, það sé fólk í héraði sem sjái vegina sína drabbast niður.

En þessi skilningur hefur líka verið til á öðrum stað og það er hjá Vegagerðinni sem hefur verið óþreytandi í að vara við því að við skerum of mikið niður í viðhaldi. Það er eitthvað verið að snúa þessu við núna og það er mjög vel, en niðurskurðurinn var slíkur til almenns viðhalds á kreppuárunum þegar við réttilega skárum niður til samgöngumála til að reyna að verja velferðarkerfið og störfin í velferðarþjónustunni, við gerðum það réttilega, að hann bitnaði m.a. á þessu. Síðan komu kröfurnar um stórframkvæmdirnar. Og nú eru menn aftur farnir að tala um 2+2 vegi. Hvers konar endemis rugl er þetta? Við þurfum ekkert á slíku að halda. Meðan við getum ekki búið sómasamlega að öldruðu fólki á Íslandi þá eigum við ekki að hugsa á þann veg. Við eigum ekki að gera það. Við erum 330 þús. manns og við eigum að sníða okkar stakk eftir vexti. Og við eigum að láta peninga fara í endurnýjun á vegum og viðhald veganna. Það þekkir fólk á landsbyggðinni hve mikils virði það er og hversu alvarlegt er þegar skorið er þar óheppilega og mikið niður.

Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að stórframkvæmdir geta skipt sköpum fyrir fólk. Tengingin við Landeyjahöfn er gríðarlega mikilvæg fyrir Vestmannaeyjar, gríðarlega mikilvæg. Þegar menn voru að tala hér um samanburð á Vaðlaheiði og Landeyjahöfn þá er munurinn sá að Vaðlaheiði var ekki inni í samgönguáætlun, það er munurinn, það er stóri munurinn. Og um það snerust deilurnar á sínum tíma.

Annað sem ég leyfi mér að gera athugasemdir við er að Bakkaframkvæmdin skuli vera í áætluninni. Sú framkvæmd kom í gegnum atvinnuvegaráðuneytið, ekki samgönguráðuneytið. Hún er vistuð, eins og hæstv. ráðherra sagði, í þessari áætlun en á ekki heima þar. Þetta er stuðningur við iðnaðarframkvæmd upp á 1,8 milljarða á þessu ári og næsta ári, 1,8 milljarða, 1.800 milljóna stuðningur við iðnaðarframkvæmd, og á ekki að vera í samgönguáætlun, hún á ekki að vera þar. Það er líka gert ráð fyrir því að þessi kostnaður verði meiri, 3.100 milljónir, án þess að fyrir því sé fjárveiting þótt sú tala sé nefnd hér.

Varðandi Sundabrautina þá segir hæstv. ráðherra að ekki sé nú hægt að ráðast í það, eða svo segir í þessari áætlun, vegna þess að ekki séu til peningar. Erum við ekki að fá upplýsingar um það að þessi ríkisstjórn ætlar að skera niður skatta um 16 milljarða á næstu árum? Þá verða til enn minni peningar. En samt á að ráðast í þessa framkvæmd. Hvernig stendur á því að það er hægt? Það er vegna þess að peningana á að taka með öðrum hætti upp úr okkar vösum. Þessi hugsun, þessi nýja skattheimtuaðferð Sjálfstæðisflokksins, þessi nýja ásælni ofan í vasa borgaranna, hlýtur að eiga sér einhvers staðar takmörk. Við sjáum hvað er að gerast í velferðarkerfinu, í sjúkrahúsunum, þar sem fimmtungur af kostnaði við heilbrigðiskerfið í landinu kemur beint upp úr vasa sjúklinga. Nú ætla menn að halda inn á þessa braut í vegakerfinu líka, bara fara ofan í vasann hjá okkur. Ég segi nei takk. Nei takk. Ég vil ekki sjá það.

Hæstv. forseti. Að lokum þetta varðandi Sundabraut. Síðasta ríkisstjórn tók þá afstöðu, og það var góð ákvörðun, að hér ætti að styrkja almannasamgöngur. Settur var milljarður til að efla almannasamgöngur, 900 milljónir til þessa svæðis hér og 100 milljónir annars staðar. Þetta átti að halda í við verðlag, en hefur ekki gert það. Framlagið núna, 896 millj. kr., væri miklu hærra ef það hefði fylgt verðlagi. Þetta var ígildi stórframkvæmdanna fyrir þetta svæði. Og framtíðin liggur þarna, að hætta að hugsa eins og Houston í Texas og hugsa eins og Reykjavík sem ætlar að halda inn í framtíðina á nýjum forsendum, vistvænum samgöngum sem þjónar almenningi vel, en að hlaða ekki alltaf nýjum og nýjum akbrautum, 16 akbrautir til og frá Reykjavík, 2+2 eru menn farnir að tala hérna um í einhverju óráði þegar við höfum ekki peninga til þess. (Forseti hringir.)

En ég vil þakka fyrir það sem vel er gert hér. Það er margt sem horfir til mikilla bóta. Ég fagna því að eigi að láta fjármuni til að halda betur vegakerfinu við. Það eru ýmsir þættir aðrir sem vert (Forseti hringir.) er að segja góða hluti um.