144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[13:31]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst varðandi muninn á notendagjöldum og sköttum. Skattar eru iðulega tekjutengdir. Þeir hafa verið það í okkar kerfi þó að þessi ríkisstjórn sé að reyna að draga úr því. Það er tekjutengt. Notendagjöld eru óháð stöðu okkar í samfélaginu peningalega séð, efnalega séð. Það er á þessu grundvallarmunur. Þessi ríkisstjórn vill fara í auknum mæli út á þá braut að taka frá okkur sem notendum gjöld, láta okkur borga beint. Það kemur alveg eins við okkar pyngju og verst við pyngju þeirra sem minnstu hafa úr að moða.

Varðandi tvöföldu vegina þá er það alveg rétt, það liggur í augum uppi, að mikið öryggi er fólgið í því að hafa algerlega aðgreindar reinar, vegi. En ég hygg að hægt sé að ná sama öryggi — og ég byggi það á samtölum mínum við sérfræðinga Vegagerðarinnar, ég byggi það líka á áherslum sem koma frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda — og sambærilegum markmiðum, eða svipuðum markmiðum, með 2+1 og þá einhverjum vegriðum. Þetta eru upplýsingar sem ég fékk aftur og ítrekað frá sérfræðingum Vegagerðarinnar.

Ég vil hlusta á það og horfa til þess að við höfum takmörkuð fjárráð. Það er margt sem við viljum gera og þá eigum við að reyna að haga málum þannig að vissulega náum við sem mestu öryggi fyrir vegfarendur, en líka hagræði fyrir okkur sem borgum fyrir þetta, hvort sem við gerum það í gegnum skatta eða notendagjöld.