144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[13:35]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Við erum að ræða um fjögurra ára samgönguáætlun sem er lögð fram af ráðherra á grundvelli laga um samgönguáætlun. Það sem mig langar að ræða hérna í fyrri umr. er annars vegar markmið þessara laga, hverju er verið að reyna að ná fram, og hins vegar langtímasýn um þróun samgöngutækja sem er mjög gott að hafa til hliðsjónar og þarf náttúrlega þegar menn eru með samgönguáætlun um innviðina.

Um markmið laganna um samgönguáætlun segir, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er að samræma áætlanagerð við framkvæmdir og rekstur í samgöngumálum. Það skal gert með samgönguáætlun til tólf ára skv. 2. gr. og fjögurra ára áætlun skv. 3. gr.“ — nú erum við að ræða þetta varðandi fjögur árin.

Ég ætla að fara í 3. mgr. 2. gr. þar sem kemur fram um samgönguáætlun, með leyfi forseta:

„Við gerð samgönguáætlunar skal jafnframt taka mið af eftirfarandi markmiðum:

a. að ná fram samræmdri forgangsröð og stefnumótun,

b. að ná fram hagkvæmri notkun fjármagns og mannafla,

c. að ná fram samræmdu skipulagi samgöngugreina og samstarfi stofnana ráðuneytisins og fyrirtækja á þess vegum.“

Það sem við erum að reyna að gera samkvæmt þessari áætlun er að ná fram samræmdri forgangsröð og stefnumótun, hagkvæmri nýtingu fjármagns og mannafla og samræma svo skipulagið við framfylgd allra þessara þátta.

Þá langar mig að koma að stóru breytingunum sem eru að verða á samgöngum, á tækjunum og bílunum, sem við stöndum frammi fyrir og menn verða að horfa til þegar þeir eru að reyna að samþætta alla þessa þætti og hámarka nýtingu þeirra auðlinda sem þurfa að koma til og svo hvernig skuli framfylgja þessu, sér í lagi samt þessa fyrstu tvo þætti.

Tímalínan í sjálfstýrðum samgöngum. Þá langar mig einkum að tiltaka einkabílinn eða öllu heldur bílinn því að hann verður einkabíll í minna mæli á komandi áratugum. Við verðum byrjuð að sjá þessa þróun eftir kannski fimm ár. Það tekur tíma að innleiða nýjan bílaflota. Þessi þróun verður orðin innleidd að miklu leyti tíu árum seinna. Þetta mun hins vegar strax fara að hafa áhrif. Tímalínan þegar kemur að sjálfstýrðum bílum: Tesla segir að bíllinn þeirra í ár muni verða 90% sjálfstýrður en Bloomberg-fréttastofan hefur eftir General Motors að þeirra bíll 2017 muni að miklu leyti verða sjálfstýrður, m.a. taki hann yfir stýrið megnið af tímanum, sjái um hröðun og hemlun á hraðbrautum eða í traffík, þ.e. fari af stað og stansi. Ef fólk horfir til þessa mun það strax minnka traffík. Menn hafa mikið talað um lestarsamgöngur hérna, að allir vagnarnir fari af stað á sama tíma. Það sama mun gerast þegar bílarnir hafa sjálfir tekið við þessum þætti. Við erum að senda smáskilaboð eða tala við náungann eða eitthvað og tökum ekki eftir því þegar bíllinn á undan okkur fer af stað. Þetta er stærsti þátturinn sem hefur áhrif á traffík, þ.e. stærsti tímaþátturinn.

Fullkomna sjálfstýringu segja Google, Tesla og Ford að við munum sjá í kringum 2020. Elon Musk, forstjóri og eigandi Teslu og stofnandi, skilgreinir fullkomna sjálfstýringu þannig að maður setjist upp í bílinn, segi honum hvert eigi að fara og sofi svo þangað til maður kemur á áfangastað. Um þetta eru þessir stóru bílaframleiðendur sammála að við munum sjá 2020. Ford dregur að vísu aðeins í land og segir: Já, en það er í góðu veðri og við góð skilyrði. Þetta eru samt sem áður bara fimm ár. Prófum tíu ár fram í tímann. Hvert verðum við komin þá?

Hvað mun þetta hafa í för með sér? Gott væri að hafa það í huga þegar við erum að gera áætlun í skipulagsmálum, samgönguáætlanir. Eitt sem þetta mun þýða, sem ég nefndi áðan, er þegar kemur að traffík. Strax og svona bílar verða innleiddir, þeir eru þegar á þessu ári með 90% sjálfstýringu, geta farið að grípa inn í, eftir tvö ár eru þeir farnir að geta gripið meiri inn í. Í traffík skiptir maður sér ekkert af. Þetta mun strax hafa áhrif á traffík. Allir sem eru að reyna að komast til vinnu hérna niðri í miðbæ og þekkja Hringbrautina og Miklubrautina yrðu guðs lifandi fegnir ef allir bílarnir færu af stað á sama tíma. Það mun fljótt fara að gerast að einhverjir bílar fari sjálfir af stað. Bílar með þennan búnað munu fara af stað á sama tíma og bíllinn á undan. Svo mun þetta þróast hægt og rólega en við munum strax sjá áhrifin af því þegar fyrstu bílarnir fara að koma í umferðina.

Önnur áhrif sem þetta mun hafa verða meðal annars þau þegar kemur að bílastæðum. Samkvæmt greiningu hjá Morgan Stanley verða þau notuð svona 4% af tímanum sem þýðir að þegar sjálfstýringin er komin að fullu þarf maður ekki lengur að eiga bíl heldur nýtir sér allt þetta deilihagkerfi sem er þegar komið af stað, m.a. með SIP Car þar sem fólk getur átt bílinn saman og deilt honum, enda getur bíllinn líka ferðast á milli staða og þarf síður að leggja honum einhvers staðar, ég tala nú ekki um ef einhver stórfyrirtæki taka þetta yfir. Þeir hjá Uber hafa sagt nú þegar að þeir stefni að því að allur þeirra bílafloti verði keyrður af tölvum, sem sagt sjálfstýrðir bílar. Þegar við erum komin þangað er ekki lengur þörf á þessari næstdýrustu eign hverrar einustu fjölskyldu, dýrast er húsið náttúrlega en næstdýrasta eignin sem fólk kaupir sér situr 96% af tímanum í einhverju bílastæði. Þið getið ímyndað ykkur hagkvæmnina og sparnaðinn fyrir fólk.

Fólk mun stökkva á þetta í sífellt meira mæli. Ef það stendur frammi fyrir því að þurfa að skutlast eitthvert þá pantar það bara bíl í Uber-appinu sínu. Það eru einhver lagaleg vandkvæði þar en þau verða leyst. Löggjafinn mun náttúrlega taka á þessum innmúruðu hagsmunum leigubílstjóra í dag. Ég hef heyrt úr ráðuneytinu að Uber, ekki sjálfstýringin heldur bara Uber og slík deilihagkerfi séu komin til að vera. Það endurspeglast samt ekki í frumvarpinu sem er núna fyrir umhverfis- og samgöngunefnd varðandi farþegaflutninga á landi í atvinnuskyni. Þau í ráðuneytinu sögðu: Þetta var ekki alveg komið í gang þegar við byrjuðum vinnuna við lagafrumvarpið en við vitum að þetta mun koma. Þetta er það sem mun koma. Þá erum við ekki að tala um sjálfstýrðu bílana heldur að þetta verði örugglega leyst lagalega þegar sjálfstýrðu bílarnir koma. Þetta þýðir að annars vegar mun draga úr þörfinni fyrir öll þessi bílastæði og við getum þá byggt fasteignir þar og hins vegar verða öll bílastæðin meðfram götunum óþörf sem auðveldar fólki enn frekari að komast á milli og minnkar traffík.

Þetta er eitthvað sem ég vona að komist til skila og að við getum á einhverjum forsendum haft áhrif á í meðferð nefndarinnar, að við höfum þetta í huga þegar við erum að gera samgönguáætlun og ef ekki þá alla vegana í framtíðinni og við löggjöf þannig að við förum að horfa svolítið fram í tímann við áætlanagerð til framtíðar. Langtímastefnumótun hefur verið akkillesarhæll okkar Íslendinga. Ég held að við þurfum að fara að gera það í meira mæli. Þetta innlegg hérna beinir sjónum okkar til þessara þátta svo að við höfum þá alla vega á bak við eyrað og sjáum hvort það hafi ekki áhrif til lengri tíma. Minni sjálfstýranleiki, 90% sjálfstýranleiki, mun fara að hafa áhrif. Við munum taka eftir því á næstu árum.