144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[13:44]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og ég gerði í andsvari mínu við hæstv. innanríkisráðherra fagna því að við séum hér að fjalla um samgönguáætlun. Því miður hefur ekki tekist að klára hana undanfarin ár, kannski vegna þess að frá hruni hefur afar takmörkuðu fé verið varið í þennan málaflokk, en eins og ég sagði þá benda allir hagvísar nú til þess að meiri afgangur verði í ríkissjóði og ég hef bent á að nauðsynlegt sé að verja hluta þess afgangs til uppbyggingar á samgöngukerfi landsins. Hér hafa margir bent á viðhald vega. Ég steig fram í fyrra og nefndi að við yrðum að passa okkur á því að viðhald vega yrði ekki það slæmt að við mundum lenda í svipuðum vandamálum og Finnar. Þeir gengu í gegnum sína kreppu fyrir rúmlega 20 árum síðan og lögðu áherslu eins og við kannski á velferðarkerfið, en á meðan drabbaðist vegakerfið niður og þegar nauðsynlega þurfti að bregðast við þá var það orðið margfalt dýrara.

Þess vegna fagna ég sérstaklega að hér eigi að verja ekki bara þeim 6 milljörðum sem nefndir eru í áætlun, heldur komi líka viðbótarfjárframlag upp á 500 millj. kr. og ég er afar ánægður að sjá að þeim fjármunum sé varið einmitt í viðhald vegakerfisins sem eins og menn vita af fréttaflutningi er verulega ábótavant, bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi. Ég nefndi héraðsvegi og stofnvegi sem hafa kannski setið hvað helst á hakanum, margir malarvegir, og nú ætti að vera lag, ekki bara núna heldur kannski á komandi árum með betra tíðarfari, að gera skurk í þessum málaflokki.

Hér er lagt til að varið verði um 95,5 milljörðum kr. í samgöngumál á næstu fjórum árum, sem eru miklir fjármunir. Þetta fer stigvaxandi frá 2015 til 2018, en eins og ég benti á í andsvari mínu við hæstv. innanríkisráðherra vonast ég til að hægt verði að auka aðeins í það þegar betur árar og hagvísar gefa ástæðu til.

Ég fagna því líka sérstaklega að hér sé verið að taka tillit til aukins ferðamannastraums til landsins. Það er verið að setja sérstakt fjármagn í uppbyggingu á vegum sem segja má að ferðamenn noti mikið. Við höfum rætt Dettifossveg og þá hringtengingu sem mun nást þegar sú framkvæmd klárast. Við á Norðausturlandi köllum þetta demantshringinn okkar. Þarna eru einhverjar fegurstu náttúruperlur landsins og einhver nefndi það svo að hver og ein þeirra, Dettifoss, Ásbyrgi, Hljóðaklettar, mundi nægja alls staðar í heiminum til þess að draga að töluverðan fjölda, en fólk áttaði sig ekki á því að þarna væri á sama stað svo gríðarlega mikið að sjá og svo er Húsavíkin, sá fallegi staður með öllum þeim möguleikum sem þar eru, Mývatnssvæðið og allt þar í kring, svo ekki sé minnst á öræfin sem eru kannski vannýtt auðlind. En þessi framkvæmd ein og sér auk fleiri, ég nefni Kjósarskarðsveg, Uxahryggjaveg og Kaldadalsveg, mun hjálpa til við að byggja upp innviði í ferðamannaþjónustunni og vonandi munum við einnig geta gert betur þar í framtíðinni.

Mig langar að drepa á fjármögnunarleiðir sem við höfum til þess að setja fé í þennan málaflokk. Hér koma 32 milljarðar fyrir öll árin fjögur úr bensíngjaldi, 3,5 úr þungaskatti og kílómetragjaldi, 34 úr olíugjaldi, 1,2 úr svokölluðu vitagjaldi. Þetta eiga að vera samtals 74 milljarðar fyrir þessi fjögur ár. En þarna er um að ræða hinar svokölluðu mörkuðu tekjur og ég tók eftir því að sumir þeirra sem hafa tekið til máls hér á undan mér höfðu áhyggjur af því að þessar mörkuðu tekjur rynnu í raun ekki allar í þennan málaflokk. Hv. þm. Kristján Möller vakti athygli á því að hann hafði áhyggjur af því. Ég get tekið undir þær áhyggjur á vissan hátt, en ég vil þó segja að menn verða líka að líta á hinn þáttinn vegna þess að þetta er í rauninni skattur á þeim sem þurfa að aka mikið og stundum hefur verið talað um að þarna sé um að ræða landsbyggðarskatt. Það bitnar á þungaflutningum sem gerir svo vöruverð hærra. Margir hafa talað fyrir því að flutningsgjaldið sé lækkað eða þetta sé jafnað á einn eða annan hátt og ég tel að við þurfum að fara aðeins varlega þegar við mælumst til þess að þessi tekjustofn sé á einhvern hátt aukinn. Við urðum sammála um það í fjárlaganefnd á síðasta kjörtímabili hið minnsta að við ættum að reyna að fækka þeim liðum sem snúa að mörkuðum tekjustofnum ríkisins, en það var nú kannski ekki alveg farið eftir því, ég man að hér var samþykkt varðandi RÚV að allur sá tekjustofn eða nefskatturinn mundi renna óskertur í þann málaflokk sem gekk kannski þvert á það sem fjárlaganefndin var að ræða á sínum tíma.

Síðan kom hv. þm. Ögmundur Jónasson og nefndi að hann væri ekki sérstaklega hrifinn af því að það væri farið í sérstaka fjármögnun með verkefni. Ég vil benda á að í tíð síðustu ríkisstjórnar var ákveðið að ráðast í gerð Vaðlaheiðarganga. Það var talið ekki bara mikilvægt fyrir svæðið í heild sinni, heldur líka til þess að koma hagvexti af stað og einhverjum framkvæmdum, það var kannski vöntun á að það hefði gerst. En aðalástæðan var kannski fyrst og fremst sú að íbúar á svæðinu voru sammála um að greiða fyrir akstur í gegnum göngin gegn því að fá þau fyrr, það var fullkomin samstaða um það í öllum sveitarfélögum báðum megin við Vaðlaheiðina. Ég tel að það skipti gríðarleg miklu máli. Ég bendi á sem dæmi að þegar við töluðum um Suðurlandsveg þá náðist ekki sama samstaða. Sveitarfélögin og íbúarnir lögðust í rauninni gegn því að farið yrði í svona sérstaka fjármögnun. En svo er kannski önnur umræða að velta því fyrir sér hvort við eigum með öllu að taka af allar þessar mörkuðu tekjur, taka féð eingöngu úr sameiginlegum sjóðum okkar landsmanna, þ.e. úr skattkerfinu, en eins og ég sagði þá tókst ekki að koma því í framkvæmd á síðasta kjörtímabili, því miður.

Það eru fjölmörg verkefni sem ég mundi vilja ræða sérstaklega, en tíminn er afar naumur og hann er að renna frá mér. Ég ætla þó að leyfa mér að nefna mikilvægar framkvæmdir í mínu kjördæmi. Ég hefði gjarnan viljað fara vítt og breitt um landið, en mér sýnist á öllu að við þurfum að huga að Seyðisfjarðargöngum. Við þurfum að huga að einstökum höfnum. Við þurfum að huga að flugsamgöngum. Við þurfum að huga að flughlaðinu.

Og svo ég fari nú út fyrir, þá held ég að við þurfum aðeins að velta fyrir okkur framtíð Reykjavíkurflugvallar. Skipulagsstofnun nefndi það að Reykjavíkurflugvöllur væri tilgreindur í samgönguáætlun sem einn af grunnstoðum samgöngukerfisins, hluti af grunnneti þess, en benti á að það væri bara talað um Reykjavíkurflugvöll og það væri einhvern veginn hægt að staðsetja þann flugvöll betur. Reykjavíkursvæðið er gríðarlega stórt og eins og við vitum þá hefur borgarstjórn Reykjavíkur litið svo á að þetta þýði að hann eigi bara einhvers staðar að vera innan svæðismarka Reykjavíkurborgar. Ég hef verið þeirrar (Forseti hringir.) skoðunar að þangað til fullkomin sátt næst um annan stað þá sé Vatnsmýrin langbesti staðurinn fyrir þennan alþjóðaflugvöll.