144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[14:01]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Miðað við þann stutta tíma sem ég hafði hér til að flytja ræðu mína taldi ég best að fara yfir heildarumfang samgönguáætlunar. Ég nefndi reyndar nokkur mál í okkar ágæta kjördæmi en ég hefði getað talið upp mörg fleiri. Hvort ég telji, af því að þingmaðurinn spyr um það, að óskum sveitarstjórnarmanna sé mætt, þá tel ég svo ekki vera. Ég held að ansi margir sveitarstjórnarmenn muni hafa samband, ekki bara í okkar ágæta kjördæmi heldur víðs vegar um landið. Ég taldi þó rétt að benda á að sú ákvörðun var tekin að ráðast í stórframkvæmdir á meðan annað var kannski látið sitja á hakanum, þar á meðal margar minni mikilvægar framkvæmdir, tengivegir, héraðsvegir og annað, sem er nú heldur betur þörf fyrir í okkar víðfeðma kjördæmi.

Varðandi seinni spurninguna, varðandi viðhaldsfé sem tekið var af framkvæmdafé, þá var það í raun þrautalending, eins og þingmaðurinn þekkir, þegar fé er af skornum skammti. Það er staðreynd að ef viðhaldi er ábótavant þá þýðir það dýrara og meira viðhald í framtíðinni. Ég var sammála þeirri forgangsröðun þó að mér hafi sviðið, eins og öðrum, að það hafi verið tekið af framkvæmdafé. Mér fannst það samt skynsamlegt, í ljósi þeirrar stöðu sem við höfum verið í í ríkissjóði, að gera það, en ég mundi gjarnan vilja sjá meira. En ég fagna því að komið sé fé í Dettifossveg (Forseti hringir.) og kannski, við skulum sjá til, verður hægt að þoka málum eitthvað örlítið til betri vegar inn í umhverfis- og samgöngunefnd þegar málið kemst þangað.