144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[14:03]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og svo margir aðrir sem á undan mér hafa talað þakka fyrir framlagningu á þessu þingmáli og hæstv. innanríkisráðherra fyrir undirbúning þess. Jafnframt vil ég segja að það felur í sér áherslur sem við, sem sitjum í þessum sal, getum sjálfsagt haft 63 skoðanir á, en eðlilega er slík áætlun birt sem einhvers konar málamiðlun, forgangsröðun. Að baki hennar liggja faglegar greiningar o.s.frv. Í mínum huga er gott samgöngukerfi ekki aðeins einn mikilvægasti innviður samfélagsins, þannig ber að líta á samgöngukerfið, heldur er það ekki síður öryggismál fyrir samfélagið og forgangsröðun í vegamálum, samgöngumálum og á ekki síður heima í áherslunni undir liðnum um öryggismál, endurbætur sem draga úr slysum. Það eru þekktar rannsóknir á slysapunktum í samgöngukerfinu og ber að horfa sérstaklega á þá staði þegar horft er til forgangsröðunar fjármuna. Gott samgöngukerfi og bætt samgöngukerfi er í mínum huga líka atvinnumál og ekki bara atvinnumál í þeim skilningi að það feli í sér verkefni í vegamálum, samgöngumálum, endurbyggingu flugvalla, þjóðvega, tengivega, að verktakar, jarðvinnuverktakar hafi af því atvinnu, heldur er það líka atvinnumál í þeim skilningi að sérstaklega í hinum dreifðu byggðum er fólk mjög háð góðum samgöngum til þess að sækja atvinnu utan heimabyggðar sinnar. Sá þáttur í þróun byggða og í þróun atvinnulífs í landinu öllu verður stöðugt mikilvægari. Að sama skapi er þróun og uppbygging rafrænna samgangna mikilvæg.

Ég vil í upphafi fagna þeim áherslum sem koma fram nú í yfirlýsingu ríkisstjórnar og áætlun hæstv. innanríkisráðherra um forgangsröðun fjármuna vegna átaks í vegamálum strax á þessu ári og nefna þar hluti eins og viðhald vega, úrbætur á Uxahryggjum, Kjósarskarð og Kaldadal, sem eru í þeim flokki að geta fallist undir framkvæmdir sem bæta öryggi ferðamanna, geta verið mikilvægir í uppbyggingu atvinnu, ferðaþjónustu og eru einnig mikilvægir í þeim flokki sem við getum sagt að geti eflt byggð.

Ég vil nefna þau tíðindi sem eru í þessari framlögðu samgönguáætlun að áætlun er um framkvæmdir við Dýrafjarðargöng, en ég vil líka fjalla um Vestfjarðaveg 60. Sá úrskurður sem féll núna í vikunni er mikilvægur, að Vegagerðin komist áfram í að leggja nýja veglínu í umhverfismat og vonandi verður það til þess að við náum að halda dampi í þeim mikilvægu framkvæmdum. Það er í mínum huga akkúrat dæmi um vegaframkvæmdir sem við í þessum sal deilum ekki mikið um áherslur í en eru gríðarlega mikilvægar fyrir landið allt og fyrir þetta svæði. Ég vona að við náum að verja og sækja fram í þeim efnum þannig að við getum horft til þess að sú framkvæmd komist á leiðarenda innan tíðar.

Þá kemur að því sem ég vil beina til nefndarinnar að hún ræði í málsmeðferð sinni. Það sem kemur fyrst og fremst upp í huga minn eru tengivegir og áherslur á tengivegi í þessari samgönguáætlun, sem að mínu viti þyrfti að gera mun myndarlegra átak í. Engin ein framkvæmd í vegamálum gæti og skiptir dreifðar byggðir eins miklu máli og viðhald og uppbygging tengivega. Við notum tengivegi, holótta malarvegi allt of mikið og af því að menn nefna kjördæmin sín þá leyfi ég mér að nefna kjördæmin öll, landsbyggðakjördæmin öll í því sambandi. Tengivegir eru vegir þar sem við ökum daglega hundruðum þúsunda skólabarna til og frá skóla. Það eru íbúar þessara sveita, sem sækja vinnu um langan veg og skamman, sem þurfa að búa við þá vegi og því væri tæplega hægt að finna jafn gott átak í byggðamálum, atvinnumálum og öryggismálum en að gera enn betur í viðhaldi og uppbyggingu tengivega. Ég beini því sérstaklega til nefndarinnar að ræða það og vildi gjarnan sjá verulega bætt í þann málaflokk. Ég tel að í fram kominni samgönguáætlun sem við ræðum hér sé of hóflega lagt í það.

Í þriðja lagi vildi ég nefna það sem kemur kannski ekki oft upp í umræðum um samgönguáætlun og ég hef saknað svolítið á undanförnum árum, en það snýr ekki síður að sveitum og er viðhald girðinga. Ég ætla ekki að segja að þeir fjármunir séu ótæpilega litlir í áætluninni sem ætlaðir eru til girðingaframkvæmda og girðingaviðhalds en ég vil beina því til nefndarinnar að ræða það sérstaklega, því að ég veit að þörf er á stórátaki í endurbótum og viðhaldi veggirðinga.

Þetta er öryggismál fyrir vegfarendur og líka viðurkenning á því þar sem vegir hafa verið lagðir þvert í gegnum bújarðir bænda að standa verður vel að viðhaldi slíkra mannvirkja til þess að staðið sé við þau loforð sem gefin voru á þeim tíma þegar vegirnir voru lagðir um að vel yrði séð um þau mál.

Síðan getum við fjallað um marga aðra kosti. Ég ætla ekki að tíunda sérstaklega einstaka vegaúrbætur sem tengjast kjördæmi mínu en vil fjalla um vegabætur eða úrbætur í samgöngumálum sem tengjast tvöföldun á vegi um Kjalarnes og samhengi þeirrar framkvæmdar við Sundabraut. Ég hef ætíð lýst mig opinn fyrir því að menn geti rætt um að fjármagna vegaframkvæmdir með margvíslegum hætti, en þegar við ræðum um Sundabraut og fjármögnun hennar held ég að við megum heldur ekki gleyma því að það mætti bæta við eða prjóna við Sundabrautina tvöföldun á Kjalarnesi eða 1+2 vegi þar, sem kallað er verulega eftir með aukinni umferð að ráðist verði í á næstu árum. Án þess að ég muni flytja um það beina tillögu við afgreiðslu á samgönguáætlun nú held ég að mikilvægt sé að við skoðum þá vegaframkvæmd í samhengi við umræðuna um Sundabraut.

Samgönguáætlun er líka miklu meira en bara vegir. Hún er líka um viðhald flugvalla, svo dæmi sé tekið. Við höfum í fjárlaganefnd, undanfarin tvö haust sem ég hef setið, tekið á móti mörgum erindum sveitarstjórna um áherslur í vegamálum, samgöngumálum og ekki síður um úrbætur á flugvöllum og viðhald og afdrif innanlandsflugsins, við höfum rætt það talsvert í þessum sal. Við höfum verið að takast á við það verkefni hvernig nota megi tekjur af fluginu, millilandafluginu þá fyrst og fremst, til þess að viðhalda innanlandsflugkerfinu okkar. Það var gerð ákveðin tilraun til þess við frágang síðustu fjárlaga að benda á að nota mætti hagnað af rekstri Isavia og flytja yfir í rekstur eða viðhald á innanlandsflugvöllum. Sú tillaga fjárlaganefndar til þingsins stendur að nú verði í fyrsta sinn ráðist í talsverðar endurbætur á flugvöllum, en rétt eins og hæstv. innanríkisráðherra nefndi í framsögu sinni er gríðarleg fjárþörf í viðhaldi á flugvöllum. Nefndur var 1 milljarður á ári þannig að í mínum huga heldur það verkefni áfram hvernig finna má færa leið til þess og ná samkomulagi um það að við getum flutt sem betur fer góðan hagnað af millilandafluginu til þess að viðhalda og byggja upp innanlandsflugvelli okkar.

Þetta voru helstu þættirnir sem ég vildi tæpa á í stuttri ræðu um fram komna þingsályktunartillögu um samgönguáætlun. Ég vil beina því til hv. umhverfis- og samgöngunefndar að ræða þau atriði sem ég nefndi um tengivegi, viðhald girðinga, samhengi uppbyggingu vegs um Kjalarnes við Sundabraut, auk þeirra fjölmörgu annarra verkefna sem að sjálfsögðu þarf að ráðast í. Eins og ég sagði í upphafi getum við getum haft 63 mismunandi skoðanir á áherslunni í samgönguáætlun, (Forseti hringir.) en meginmálið er að við höfum skýra sýn og vitum hvert við stefnum.