144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[14:13]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Seint koma sumir en koma þó. Það má segja um þessa samgönguáætlun. Það hefur verið afar löng meðganga að hér kæmi alvörusamgönguáætlun inn á þingið til umfjöllunar frá nýrri hæstv. ríkisstjórn, að vísu voru gerðar vanmáttugar tilraunir til þess fyrir rúmu ári síðan að leggja fram áætlun sem dagaði hér uppi. Skömmu síðar kom í ljós að hún var hvort sem er óraunhæf miðað við forsendur fjárlaga eins og þær voru lagðar upp af þeirri hinni sömu ríkisstjórn og við það hefur setið fram á þennan dag að við erum nú loksins að ræða endurskoðaða vegáætlun til fjögurra ára, hina skemmri áætlun af tveimur sem lög gera ráð fyrir að lögð sé fram.

Það bárust svo af því fréttir á dögunum að ríkisstjórnin hefði ákveðið að bæta 1.800 millj. kr. við og þær fréttir glöddu menn að sjálfsögðu, en ekki er hægt að segja að þær hafi komið á óvart og ekki hafi verið ákveðin beiskja því samfara að hæstv. ríkisstjórn lokaði algerlega augunum fyrir því við afgreiðslu fjárlaga að auðvitað gat það ekki gengið í ljósi verulega aukinna þarfa til viðhalds og vetrarþjónustu að svelta vegamálin jafn rosalega og gert var ráð fyrir.

Það sem ég vil gagnrýna, bara til þess að hafa gert það, um leið og ég endurtek að ég fagna að sjálfsögðu því að hér er lagt aðeins meira í vegamálin, er vinnulagið í þessum efnum.

Herra forseti. Af því hæstv. ráðherra er hér á næstu grösum og mér finnst að hæstv. innanríkisráðherra — halló? Forseti. Ég vil óska eftir því að hæstv. innanríkisráðherra verði hér í salnum þannig að hún heyri mál mitt. Mér finnst að hæstv. innanríkisráðherra, ef hún má heyra mál mitt, eigi að gera Alþingi grein fyrir því hvernig þessi tillaga um 1.800 millj. kr. fæddist og hvernig var unnið með hana. Hún er ekki tekin inn í samgönguáætlun, það hef ég nú fengið upplýst og staðfest, enda áttaði ég mig ekki alveg á þessu þegar ég var að reyna að glöggva mig á þessu plaggi í gær, sem sagt 1.800 milljónirnar sem ríkisstjórnin ákvað á dögunum að bæta við eru ekki í samgönguáætlun. Þó er hún lögð fram eftir að sú ákvörðun var tekin. Það sem meira var, okkur var boðuð skipting á því framkvæmdafé sem orðið hafði væntanlega til við ríkisstjórnarborðið. Nú er ég ekki að segja að þær framkvæmdir séu ekki allar þarfar og að þær hafi ekki verið einhvers staðar inni í áætlunum, en þetta er ekki það verklag sem almennt er reiknað með að fylgt sé. Ég spyr: Kom samgönguráð að þessari skiptingu vegafjár? Gerði það það? Eða var ákvörðunin alfarið tekin við ríkisstjórnarborðið? Það er alveg fram hjá verklaginu sem lög gera ráð fyrir í þessum efnum. Þessu finnst mér þurfa að svara.

Herra forseti. Ég vil svo í öðru lagi lýsa vonbrigðum mínum með að þetta er mun magrara en ég hafði verið að vona. Ég gerði mér vonir um að nú mundu menn með batnandi þjóðarhag og ágætum hagvexti í þjóðarbúinu núna fjögur, fimm ár í röð, talsvert vaxandi þjóðartekjum, leyfa þessum málaflokki að njóta hlutdeildar í þeim vexti en það gerir hann ekki. Þótt tölur hækki hér um 2–3 milljarða, 3–4 milli ára, milli upphafsárs og lokaárs áætlunarinnar, hvað er það? Ef það er sett fram á sama verðlagi yfirstandandi árs dugar það varla til að halda hlutdeild vegamálanna í vaxandi landsframleiðslu. Það skyldi nú ekki vera að framkvæmdafé til vegamála lækki sem hlutfall af vergri landsframleiðslu miðað við þessa framsetningu? Ég hef ekki náð að reikna það út, en ég geri alla vega ekki ráð fyrir því að það geri betur en rétt halda sjó. Og það er mun lægra en það hefur verið að sögulegu meðaltali yfir áratugaskeið. Það blasir við að við verjum of litlum hluta þjóðarteknanna núna í þessi mál. Við verðum að vinna þann slaka upp. Það er þeim mun tilfinnanlegra sem landsframleiðslan er að vaxa, umferðin er að vaxa og tekjur af henni að vaxa.

Það kemur inn á annað sem er óhjákvæmilegt að nefna hér og það er slakinn í hinum mörkuðu tekjustofnum til vegagerðar. Hann er að mínu mati mjög mikið áhyggjuefni. Ef hann væri ekki til staðar og hinir mörkuðu tekjustofnar hefðu fylgt að fullu verðlagi þá stendur hér í greinargerð að við værum einum 7 milljörðum betur sett í framlögum til málaflokksins. Við værum bara í tiltölulega góðum málum, en það hefur sigið jafnt og þétt og á ógæfuhliðina við tvenn síðustu fjárlög. Ef ríkið telur sig sem slíkt hafa efni á því að láta ekki þessar mörkuðu tekjur eða sérstöku tekjuöflun fylgja verðlagi, krónutöluskattana og allt það, þá getur það auðvitað vel ákveðið það fyrir sig, en að láta það ganga út yfir mörkuðu tekjurnar til Vegagerðarinnar ár eftir ár eftir ár, það gengur ekki upp.

Ég legg til að þingið skoði það, enda á þingið að heita sjálfstæð stofnun, herra forseti, hvort þetta sé það sem viljum, eða hvort við eigum að setja inn áætlun sem gerir ráð fyrir því að þessi slaki verði unninn upp í jöfnum skrefum á fjórum árum þannig að mörkuðu tekjurnar verði komnar aftur í botn á síðasta ári þessarar áætlunar 2018. Þá verður 7 milljörðum meira til skiptanna á því ári. Sjá menn ekki muninn hvað við gætum þá aukið í til dæmis viðhaldið í uppbyggingu tengivega og annað slíkt sem er sárlega svelt? Auðvitað gengur of hægt líka með marga mikilvæga uppbyggingu á stofnvegakerfinu sjálfu. Það hefur verið hagstætt árferði til þess að vinna upp slakann í mörkuðu tekjunum, þ.e. verðbólga hefur verið lítil og það hefði haft hverfandi verðlagsáhrif þótt bensíngjöld og þungaskattur, markaði hluti þeirra tekna hefði verið færður eitthvað upp, kannski 2,5% umfram verðlag, tvö, þrjú, fjögur ár í röð, þá vinnst verulega á slakanum og það skilar gríðarlegum bata fyrir þennan málaflokk.

Ég tel að þetta sé allt of naumt varðandi vegina. Ég tel að þetta sé líka dapurlegt gagnvart fluginu. Ég hélt að eitthvað meira yrði sett í framkvæmdir og uppbyggingu flugvallarmannvirkja á landsbyggðinni. Ég sé þarna hvergi neinar efndir í vændum á tillögum starfshóps um að efla innanlandsflugið. Nú veit ég að vísu að sumar þeirra tillagna sneru bara beint að ríkissjóði, að hann afsalaði sér skatttekjum, en það þyrfti samt líka að koma þarna eitthvað í innviðum flugsins. Út af fyrir sig mætti segja sama um hafnirnar, þær fá ekki mikla úrbót hér.

Ég ætlaði nú helst ekki að halda áfram að breyta þessum þingfundi í einhvern innri fund Norðausturkjördæmis og mér var alveg nóg um hér áðan, það var orðið eins og að samgöngunefnd væri bara samgöngunefnd Norðausturkjördæmis en ekki landsins alls, en ég hlýt þó að nefna nokkur verkefni á því svæði sem ég verð að lýsa vonbrigðum yfir. Um leið og ég gleðst yfir því að Dettifossvegur fær þarna úrlausn í ákvörðun ríkisstjórnarinnar upp á einar 800 milljónir, er mér sagt, þá verð ég að benda á að þar er um að ræða framkvæmd sem er að kostnaðaráætlun upp á 2,2 eða 2,4 milljarða, þannig að það stendur mikið út af. Vonbrigðin eru þau að það er síðan ekkert sett í framkvæmdina á næstu fjórum árum þannig að biðin heldur áfram.

Ég gæti sagt sama um framkvæmdir sem búið er lengi að raða efst á listann, t.d. af Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi eins og veg um Öxi og að klára Skriðdal og að bæta tengingarnar til Borgarfjarðar eystri. Borgarfjörður eystri er að verða eini þéttbýliskjarni landsins, ef ekki bara sá eini núna eða innan skamms, sem er ekki tengdur við þjóðvegakerfið á bundnu slitlagi og svo auðvitað sunnanverðir Vestfirðir, en þeir hafa þó sjóinn og þar horfir líka til betri vegar. Vegur á Langanesströnd í hinu sameinaða sveitarfélagi Langanesbyggð þar sem eru eyður, 10–20 kílómetrar í þremur malarvegaeyðum, stendur náttúrlega algerlega upp úr þegar búið er að kosta milljörðum og aftur milljörðum í að byggja alla norðausturleiðina og Ljósavatnsskarðið um Norður-Þingeyjarsýslu, Vopnafjörð og upp á þjóðveg 1. Það er auðvitað glæsilegt og við fögnum því, það er einhver mesta samgöngubylting sem hefur orðið á því svæði, en eftir standa örfá malargöt sem rýra stórkostlega gildi þess vegar sem flutningaleiðar og heilsársvegar og eru innan sameinaðs sveitarfélags.

Ég hefði viljað sjá glitta í framkvæmdafé til Seyðisfjarðarganga í lok þessarar áætlunar. Það er gott að þarna eru inni aurar í undirbúning. Síðan fagna ég að sjálfsögðu Dýrafjarðargöngum, síðastur manna ætla ég ekki að gleðjast yfir því að Vestfirðingar fái úrbót sinna samgangna og hef ég mig þó aðeins upp fyrir kjördæmið. En auðvitað þarf þá Dynjandisheiði að koma inn, það bara er eins og að segja A að koma með göng undir Hrafnseyrarheiði eða Dýrafjarðargöng ef ekki verða vegabætur í framhaldinu áfram suður um. Það verður að vera samræmi í ákvörðun af þessu tagi sem við tökum. Við förum ekki að setja milljarða af opinberu fé í jarðgöng og opna þau svo bara út á ónýtan malarveg sem er lokaður níu mánuði á ári. Það er ekki mjög gæfuleg fjárfesting. Að vísu glittir þarna í framkvæmdafé á tveimur síðustu árunum, (Forseti hringir.) en þetta er alldýr framkvæmd og það verður veruleg bið á því (Forseti hringir.) að hún komist í gagnið í kjölfar ganganna nema þarna verði betur gert.