144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[15:07]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta er mjög góð spurning. Það er rétt, sem hv. þingmaður segir, að það er ekki nóg að fara í Dýrafjarðargöng ef við ætlum ekkert að gera í Dynjandisheiði, af því að þar yrði þá farartálmi. Við sjáum að árin 2017 og 2018 fara samtals 850 milljónir í veginn um Dynjandisheiði. Það er ekki nema tæpur 1/4 eða 1/5 af því fjármagni sem þarf til að kára þann veg. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki alveg inni í því hvað hægt er að gera fyrir þá fjármuni, ég verð að viðurkenna að ég er ekki viss hvað þessi upphæð þýðir í heildarkostnaðinum. En ég tel alla vega að ef við setjum fjármagn í þetta þá komi mun meira síðar meir, að þetta séu fyrstu skrefin í því að koma á miklum samgöngubótum milli sunnanverðra og norðanverðra Vestfjarða.

Ég held að ég hafi gleymt að segja áðan í ræðu minni að við þingmenn Norðvesturkjördæmis höfum alltaf talað um það, sama hvar við komum í kjördæmið, að brýnasta mál innan okkar svæðis séu samgöngumál Vestfjarða. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef hafa þau dregist aftur úr, meðal annars vegna réttaróvissu varðandi Teigsskóg og því miður hafa Dýrafjarðargöng dregist eitthvað miðað við fyrri samgönguáætlanir.

Svo að ég svari hv. þingmanni þá tel ég að það sé bót frá því sem nú er að við séum alla vega að byrja á þessum framkvæmdum sem verða til mikilla bóta.